Viðskipti innlent

Lýður: Vonbrigði að málaferli gegn Bretum eru ekki hafin

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, segir að það séu vonbrigði að enn séu ekki hafin málaferli gegn breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra gegn Singer & Friedlander banka Kaupþings í Bretlandi. Lýður ræddi þetta m.a. í ræðu sinni á aðalfundi Exista sem haldinn var í dag.

„Exista hóf fljótlega í kjölfar þessarar árásar að kanna grundvöll málaferla í Bretlandi vegna hennar. Í janúar á þessu ári var orðið ljóst að skilanefnd Kaupþings hefði afráðið að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum og var þá ákvörðun tekin um að Exista myndi bíða niðurstöðu þess málareksturs áður en lengra yrði haldið," segir Lýður.

„Jafnframt lét Exista skilanefnd Kaupþings í té ítarleg gögn og annan afrakstur undirbúningsvinnu sem unnin hafði verið af breskum lögmönnum félagsins. Exista greiddi tugi milljóna króna fyrir þessa vinnu og því veldur það vonbrigðum að engar ákvarðanir virðast enn hafa verið teknar, hvorki af bankanum né íslenskum stjórnvöldum, um málaferli til þess að fá úr því skorið hvort hinn breski banki Kaupþings hafi verið beittur órétti sem ef til vill bakar breskum stjórnvöldum skaðabótaskyldu. Það vekur ekki síst furðu vegna yfirlýsinga stjórnvalda um að sækja skaðabætur á hendur þeim sem bakað hafa þjóðinni tjón í aðdraganda bankahrunsins."

Fram kemur í ræðu Lýðs að margoft hafi komið fram að Kaupþing Singer&Friedlander í London var fjárhagslega mun sterkari en margir þeirra banka sem bresk stjórnvöld komu til hjálpar. Hann hefði því með sömu fyrirgreiðslu staðið við skuldbindingar sínar að fullu eins og önnur erlend starfsemi Kaupþings. Í rannsókn íslenskra stjórnvalda á aðdraganda og ástæðum bankahrunsins verður vafalítið reynt að leita svara við því hvers vegna bresk stjórnvöld afréðu að yfirtaka bankann með jafn gerræðislegum hætti og raun bar vitni. Óbilgirnin að baki þeirri ákvörðun er í raun óskiljanleg og mismununin í aðkomu breskra stjórnvalda að stöðu bankanna í landinu er hrópleg.

Í ræðu sinni fjallaði Lýður m.a. um bankahrunið og afleiðingar þess. „Ég er stuðningsmaður þess að bankahrunið, aðdragandi þess, ástæður og afleiðingar verði rannsakaðar með yfirgripsmiklum og vönduðum hætti. Í þeirri vinnu má ekkert til spara, hvorki fjármuni né fagmennsku. Ég er líka fylgjandi því að þeir sem ábyrgðina bera verði dregnir til hennar," segir Lýður.

„Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að hafi verðmætum verið skotið undan með ólögmætum hætti verði þau sótt með öllum tiltækum ráðum. Og ég er sannfærður um að allt þetta verður gert. Ég er hins vegar alls ekki fylgjandi því að á sama tíma sé tugum eða jafnvel hundruðum milljarða króna kastað á glæ í þeim tilgangi einum að knésetja einhverja einstaklinga sem af einhverjum ótilgreindum eða jafnvel engum ástæðum hafa verið úrskurðaðir sekir af dómstóli götunnar."

Lýður segir ennfremur að það sé tvímælalaust þáttur stjórnvalda að halda haus gagnvart því andrúmslofti nornaveiða sem kynt hefur verið upp í samfélaginu en því miður virðist kjarkur þeirra til að taka af skarið og standa vörð um stoðir réttarkerfisins vera af skornum skammti. „Að minnsta kosti er mér ekki kunnugt um að nokkurs staðar í stjórnsýslunni hafi verið hvatt til þess að íslenskir kröfuhafar Exista leggðu sig fram um að ná samningum við félagið enda þótt fyrir liggi áætlanir þess um að endurgreiða að minnsta kosti langstærsta hluta skuldbindinga sinna," segir Lýður.

„Í uppbyggingu Exista á undanförnum árum hefur margt verið gert vel en mistök hafa líka verið gerð og á þeim vil ég biðja hluthafa félagsins afsökunar. Ljóst er að mikið tap þeirra verður ekki umflúið og væntanlega mun ekkert eitt félag, utan bankanna, tapa meiri verðmætum á bankahruninu en Exista. Í þeim efnum erum við ekki eingöngu þolendur eða fórnarlömb heldur einnig gerendur.

Ég vík mér ekki undan ábyrgð á því sem betur hefði mátt gera í fjárfestingum félagsins og áhrifum þess á rekstur dóttur- og hlutdeildarfélaga. Ég er hins vegar hreykinn af þeirri staðreynd að félagið búi yfir nægjanlegum styrk til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar þó á löngum tíma sé."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×