Viðskipti innlent

Losnuðu undan 80 milljón króna skuld

Sigríður Mogensen skrifar

Auður Arna Eiríksdóttir, útibússtjóri Byrs, sem var meðal upprunalegra eigenda stofnfjárbréfanna í Byr sem félagið Exeter keypti, millifærði sjálf af reikningi þess í tengslum við viðskiptin. Hún og barnsfaðir hennar losnuðu undan 80 milljóna skuld hjá MP banka með viðskiptunum.

Skömmu eftir bankahrunið keypti félag að nafni Exeter stofnfjárbréf í Byr af MP banka og fleiri aðilum fyrir samtals rúman milljarð. Sum bréfanna hafði MP banki eignast í gegnum veðköll, en upprunalegir eigendur bréfanna voru sparisjóðsstjóri Byrs, stjórnarmenn og starfsmenn Byrs, þar á meðal útibússtjóri. Byr sá um að fjármagna kaupin með því að veita Exeter rúmlega eins milljarða yfirdráttarheimild.

Kaupin fóru fram í tveimur hlutum. Um miðjan október voru keypt bréf fyrir 800 milljónir. Tveimur mánuðum síðar keypti Exeter svo bréf Birgis Ómars Haraldssonar, þáverandi stjórnarmanns í Byr, fyrir rúmar 200 milljónir.

Peningarnir voru millifærðir af reikningi Exeter og fóru allir inn á reikning hjá MP banka.

Gögn sem fréttastofa hefur séð og er með undir höndum sýna að viðskiptin fóru fram á þennan hátt.

Mikil óvissa er um verðmæti stofnfjárbréfa Byrs í dag. Með þessu komst MP banki hjá því að afskrifa hundruð milljóna.

Gögn sem fréttamaður hefur séð sýna einnig að Auður Arna Eiríksdóttir, útibússtjóri Byrs, framkvæmdi síðari millifærsluna af reikningi Exeter. En hún sjálf og barnsfaðir hennar sluppu við samtals 80 milljóna skuld við MP banka með viðskiptunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×