Erlent

Fídel í fínu formi

Rafael Correa forseti Ekvador á tali við Fídel um helgina.
Rafael Correa forseti Ekvador á tali við Fídel um helgina.

Fyrrverandi leiðtogi Kúbu, Fídel Castro, birtist landsmönnum óvænt í sjónvarpi í gærkvöldi í fyrsta sinn í rúmt ár.

Castro, sem orðinn er 83 ára gamall sást síðast opinberlega í júní á síðasta ári en í gær mátti sjá hann á spjalli við stúdenta frá Venesúela um ástand heimsins á ráðstefnu sem fram fór um helgina í höfuðborg Kúbu Havana.

Auk myndbandsins prýddi Kastró forsíður ríkisdagblaðsins á sunnudaginn en þar mátti sjá hann á spjalli við forseta Ekvador, Rafael Correa. Stjórnmálaskýrendur segja að leiðtoginn aldni hafi ekki litið betur út í fjöldamörg ár og var hann klæddur í hvíta stuttermaskyrtu í stað íþróttagallans sem hann hefur kosið að klæðast síðustu misserin.

Castro hefur látið afar lítið fyrir sér fara í kjölfar þess að hann gekkst undir skurðaðgerð á þörmum í júlí árið 2006 . Hann sagði af sér sem forseti landsins eftir áratuga setu á valdastóli og eftirlét bróður sínum Raúl stjórnartaumana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×