Skoðun

Auðlindir á 30 milljónir?

Sigrún Elsa Smáradóttir skrifar

Orkufyrirtæki í almannaeigu hafa verið ein af grunnstoðum framfara og hagsældar á Íslandi og lagt grunninn að lágu orkuverði til hagsbóta fyrir almenning og atvinnuvegi. Í borgarstjórn í dag verður lagður fram samningur um sölu á tæplega 32% hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku til skúffufélagsins Magma Energy Sweden. Mikið tap OR er fyrirsjáanlegt á viðskiptunum. Einungis 30% söluvirðisins eru greidd út, afgangurinn á kúluláni til 7 ára sem ber 1,5% vexti, og einu tryggingar OR fyrir greiðslu eru veð í bréfum í HS Orku.

Í desemberlok árið 2006 tók Sjálfstæðisflokkurinn við 30 milljóna styrk til flokksins frá FL Group. Rúmum tveim mánuðum síðar í mars árið 2007 var auglýst eftir kaupendum að hlut ríkisins í HS Orku. Þeir einkennilegu skilmálar voru á sölunni að aðeins einkaaðilum var heimilt að kaupa hlutinn og þar með sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu útilokuð. 30. apríl 2007 samþykkti fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins Árni Mathiesen sölu til GGE, en GGE var einmitt í meirihlutaeigu FL Group sem örfáum mánuðum áður hafði styrkt Sjálfstæðisflokkinn svo rausnarlega.

Ljóst er að störf rannsóknarnefndar um bankahrunið ná ekki yfir einkavæðingu í orkugeiranum. Þar er þó augljóslega rannsóknar þörf og ófært að málið sé þagað í hel.

Sala ríkisins fór fram án þess að fyrir lægi löggjöf sem tryggði auðlindir í almannaeigu eða eignarhald opinberra aðila á einkaleyfisstarfseminni. Segja má að Samfylkingin hafi unnið varnarsigur eftir að flokkurinn settist í ríkisstjórn og fékk ný orku- og auðlindalög samþykkt sem taka á þessum þáttum, þó að nauðsynlegt sé að endurskoða löggjöfina í ljósi reynslunnar.

Í sumar seldu sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ GGE 34% hlut bæjarfélagsins í HS Orku fyrir smánarverð. Nú í dag ætla svo sjálfstæðismenn í Reykjavík undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í bandalagi við Framsóknarflokkinn að selja hlut OR í HS Orku með miklu tapi og tryggja að fyrirtækið verði alfarið í eigu einkaaðila, sem þó munu ekki borga nema lítinn hluta fyrr en eftir sjö ár.

Höfundur er borgarfulltrúi og situr í stjórn OR.






Skoðun

Sjá meira


×