Viðskipti innlent

Seðlabankinn: Kúlulán fela vanskilavanda fyrirtækja

„Áætlað er að fjórðungur fyrirtækja sé í vanskilum. Það er þó sennilega vanmat, því að þriðjungur lána fyrirtækja eru kúlulán og vanskil kúlulána koma sjaldan í ljós fyrr en þau falla í gjalddaga vegna þess að venjulega þarf ekki að greiða vexti af þeim fyrr en þá."

Þetta segir í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans sem birt var á vefsíðu bankans í gær og einnig hér á visir.is. Nefndin telur samkvæmt þessum orðum að skuldavandi fyrirtækja sé töluvert umfangsmeiri en áður var talið.

Í fundargerðinni segir að mat Seðlabankans á stöðu fyrirtækja, sem byggist á upplýsingum frá lánastofnunum um stöðu lána og innstæðna innlendra fyrirtækja í lok júní 2009, sýnir að 70% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja eru í erlendum gjaldmiðli. Engu að síður hefur rúmlega helmingur fyrirtækja engin erlend lán. Það á einkum við um smærri fyrirtækin.

Stór hluti lána fyrirtækja er á gjalddaga á næstu fjórum árum. Ríflega fjórðungur þeirra fellur í gjalddaga innan eins árs og ef þau verða framlengd er líklegt að hluta þeirra verði breytt í krónur, enda er aðgangur að erlendu lánsfé afar takmarkaður um þessar mundir. Gjaldeyrisreglur Seðlabankans leyfa aðeins framlengingu lána í erlendri mynt ef önnur ákvæði og skilyrði haldast óbreytt.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×