Viðskipti innlent

Seðlabankinn verður að afnema gjaldeyrishöftin

Jón Daníelsson
Jón Daníelsson

Jón Daníelsson hagfræðiprófessor segir að Ísland sé eina landið í heiminum sem beitir hagstjórnarlegum mistökum frá fimmta áratugnum og á þar við gjaldeyrishöftin. Hann segir það besta sem stjórn Seðlabanka Íslands gæti gert þegar hún mætir til vinnu í fyrramálið sé að afnema höftin sem virka ekki að hans mati. Þetta kom fram í máli Jóns í Silfri Egils á Rúv fyrir stundu.

Jón sagðist einnig vera mun bjartsýnni nú en áður og sagðist hafa fundið fyrir mikilli breytingu hjá útlendingum í okkar garð á síðustu vikum og mánuðum. Hann sagði alþjóðlega umhverfið hafa breyst og botninum væri líklega náð þar

„Þegar fólk erlendis fer að sjá að Íslandi er farið að ganga betur þá fer fólk að fjárfesta hér á landi og er ekki eins hart í því að refsa okkur vegna þeirra mistaka sem voru gerð hér á landi fyrir kreppu."

Hann sagði einnig mikilvægt að búið væri að afgreiða Iceasavemálið þó hann sé ekki hrifinn af lendingunni. Sagði hann meðal annars að ef hann hefði setið á alþingi hefði hann kostið gegn frumvarpinu. Hann sagði einnig mikilvægt að búið væri að koma bönkunum í gang þó það hefði átt að gera það fyrir sex mánuðum síðan.

Það slæma í stöðunni í dag eru hinsvegar gjaldeyrishöftin að mati Jóns. Hann segir þau hafa verið mestu mistökin sem gerð voru.

„Ef að Seðlabankinn ætlar að herða á þessum höftum mun það valda miklum skaða hér á landi. Það besta sem þeir geta gert erð að viðurkenna að þau virki ekki."

Hann sagði alls ekki hættu á því að krónan félli ef höftin verða afnumin, þvert á móti gæti krónan styrkst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×