Viðskipti innlent

Gengishrun og verðbólga ef SÍ getur ekki treyst á stjórnvöld

Jón Steinsson
Jón Steinsson
Stjórnvöld þurfa að aðstoða Seðlabankann með aðhaldi í ríkisfjármálum. Ef Seðlabankinn getur ekki treyst á stjórnvöld þegar mest á reynir er ljóst að framundan er botnlaust gengishrun og verðbólga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein eftir Jón Steinsson, lektor í hagfræði við Columbia háskóla, í Morgunblaðinu í dag.

Hann bendir á að stjórnvöld geti með skynsamlegri fjármála- og peningastefnu haft fullkomna stjórn á verðlagi til lengri tíma. Ef stjórnvöld marka stefnu um stöðugt verðlag til lengri tíma og standa við þá stefnu mun hrun á gengi krónunnar við afnám hafta leiðréttast af sjálfu sér. Skynsamleg stefna, sem þó byggist ekki að neinu leyti á notkun gjaldeyrisforðans ásamt venjulegum markaðsöflum mun þannig takmarka hrun krónunnar, mynda náttúrulegan botn og lyfta henni aftur upp í eðlilegt gengi.

Hin raunverulega hætta á öngþveiti og óðaverðbólgu er að stefna stjórnvalda samrýmist ekki stöðugu verðlagi. Mikilvægasti þáttur slíkrar stefnu er ábyrg stefna í ríkisfjármálum. Jón segist ekki þekkja eitt einasta dæmi um óðaverðbólgu sem orsakast af öðru en óstjórn í ríkisfjármálum. Hann bendir þó á að ábyrg stefna í ríkisfjármálum sé ekki það eina sem þarf til þess að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma. Einnig er nauðsynlegt að peningamálastefna stjórnvalda samrýmist stöðugu verðlagi til lengri tíma. Verðbólgumarkmið eins og það hefur verið útfært af Seðlabanka Íslands og fjölda annarra seðlabanka undanfarin ár hefur því miður alvarlega galla hvað þetta varðar, að mati Jóns.

Þegar gjaldeyrishöftin eru afnumin er viðbúið að gengið taki dýfu og enn eitt verðbólguskot eigi sér stað. Við slíkar aðstæður skapar verðbólgumarkmið Seðlabankans væntingar um að hækkun á verðlagi sem á sér stað í verðbólguskotinu muni aldrei ganga til baka. Þetta þýðir að stór hluti af gengislækkuninni mun ekki heldur ganga til baka þar sem gengið ræðst til lengri tíma af verðlagi.



Núverandi aðstæður kalla á verðlagsmarkmið - ekki verðbólgumarkmið


Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands hefur því miður ekki reynst vel. Frá því verðbólgumarkmiðinu var fyrst náð seint á árinu 2002 hefur verðlag hækkað um 37% umfram markmið Seðlabankans.

Verðlagsmarkmið er mun betri stefna en verðbólgumarkmið við íslenskar aðstæður. Kostir verðlagsmarkmiðs fram yfir verðbólgumarkmið eru sérstaklega mikilvægir þegar gjaldeyrishöftunum er aflétt þar sem þá er mikil hætta á gengishruni og verðbólguskoti. Verðlagsmarkmið myndi hjálpa Seðlabankanum að skapa væntingar um að lækkun á gengi krónunnar muni ganga tilbaka

Að lokum segir Jón að geta Seðlabankans til þess að skapa stöðugleika ræðst að stórum hluta af því hversu sannfærandi stjórnvöld eru í því að styðja áframahaldandi sjálfstæði hans. Ef Seðlabankinn getur ekki treyst á stjórnvöld þegar mest á reynir er ljóst að framundan er botnlaust gengishrun og verðbólga. Það er því til mikils að vinna að stjórnvöld skapi Seðlabankanum góða umgjörð og standi óhaggað á bak við óvinsælar aðgerðir hans þegar mest á reynir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×