Innlent

Vatn fossaði úr kannabisverksmiðju

Kannabisræktun Kannabisræktunin í Kópavogi var ekki jafn umfangsmikil og í kannabisverksmiðjunni sem lögreglan fann á Kjalarnesi í mars. Verðmæti framleiðslunnar þar var metið á fimmtíu milljónir króna.Fréttablaðið/GVA
Kannabisræktun Kannabisræktunin í Kópavogi var ekki jafn umfangsmikil og í kannabisverksmiðjunni sem lögreglan fann á Kjalarnesi í mars. Verðmæti framleiðslunnar þar var metið á fimmtíu milljónir króna.Fréttablaðið/GVA

Vatnsleki úr íbúð í Kópavogi í fyrrinótt varð til þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann kannabisræktun með ríflega hundrað plöntum.

Gríðarlegur vatnsleki var úr íbúðinni sem er í fjölbýlishúsi. Þar sem húsráðandi var ekki heima og ekki hægt að ná í hann til að komast inn í íbúðina var gripið til þess ráðs að kalla til lögreglu. Einnig var slökkviliðið kvatt á staðinn til að dæla vatninu upp.

Þegar lögreglan fór inn í íbúðina reyndist kannabisræktun vera þar í fullum gangi. Húsráðanda bar svo að, ásamt öðrum manni, þegar lögregla var um það bil að ljúka störfum. Þeir voru báðir handteknir og færðir til skýrslutöku. Maðurinn mun hafa komið við sögu áður hjá lögreglu, meðal annars vegna fíkniefnamála.

Í fyrrinótt tók lögreglan einnig kannabisræktun í Skipholti. Þar voru fjörutíu plöntur teknar.

Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×