Viðskipti innlent

Kaup Föroya Banki á Verði endanlega í höfn

Føroya Banki hefur fengið öll nauðsynleg leyfi eftirlitsaðila til kaupa á 51% hlut í tryggingafélaginu Vörður. Þar af leiðandi hefur verið gengið endanlega frá kaupunum í dag.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að Vörður Tryggingar hf. eigi 30% hlut í félaginu Vörður Líftryggingar sem komið var á fót árið 2007 en aðaleigandi þess er NBI hf. (Landsbankinn). Samkvæmt samkomulaginu sem gert hefur verið geti Vörður og Föroya Banki í sameiningu við Landsbankann orðið eigendur 51% hlutar í Vörður Líftryggingar.

Föroya Banki á fyrir tryggingafélagið Trygd í Færeyjum en með kaupunum sé bankinn að styrkja stöðu sína á tryggingamarkaði á Norðurlandamarkaði. Kaupin séu þar að auki liður í áætlunum bankans um vöxt utan Færeyja en markaðshlutdeild bankans þar er um 40%.

Föroya Banki sendi einnig frá sér tilkynningu um að matsfyrirtækið Moody's hefði staðfest lánshæfismat bankans með stöðugum horfum. Lánshæfismat vegna langtímaskuldbindinga er A3, til skemmri tíma P-2, fjárhagslegur styrkur C-.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×