Viðskipti innlent

Sjö hópuppsagnir

Hópuppsagnirnar sem bárust Vinnumálastofnun í mars ná til 200-300 starfsmanna.
Hópuppsagnirnar sem bárust Vinnumálastofnun í mars ná til 200-300 starfsmanna.

Sjö fyrirtæki tilkynntu Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í mars. Þetta eru fjármálafyrirtækin SPRON, Straumur-Burðarás og Sparisjóðabankinn, bílaumboðin Ingvar Helgason og B&L og tvö fyrirtæki úr byggingageiranum og þjónustustarfsemi. Samtals segja þessi fyrirtæki upp 200-300 mönnum.

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir erfitt að áætla nákvæmlega hvað hópuppsagnirnar ná til mikils fjölda starfsmanna. Uppsögnin hjá SPRON nái til allra 160 starfsmannanna en ljóst sé að ekki verði öllum sagt upp. Væntanlega haldi einhverjir starfsmenn áfram í útibúum og því sé erfitt að segja nákvæmlega hversu margir missa vinnuna þegar upp er staðið.

Hópuppsagnir hafa átt sér stað í nánast hverjum mánuði frá því í haust. Í október bárust Vinnumálastofnun 65 uppsagnir vegna tæplega 3.000 einstaklinga. Í nóvember voru tilkynningarnar tólf, í desember fjórar, tíu í janúar og engin í febrúar. Uppsagnirnar snerta einkum fólk í byggingariðnaði, verslun og flutningastarfsemi og útgáfustarfsemi.- ghs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×