Erlent

Microsoft skipti um höfuð manns í auglýsingu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Auglýsingin - fyrir og eftir.
Auglýsingin - fyrir og eftir. MYND/Microsoft/CNET

Hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft hefur beðist afsökunar á að hafa sýnt lélega dómgreind með því að breyta auglýsingu fyrirtækisins.

Glöggir menn ráku augun í það á dögunum að auglýsingu frá Microsoft hafði verið breytt á snyrtilegan og hljóðlátan hátt í Photoshop eða öðru ámóta forriti. Auglýsingin er á vefnum og sýnir fund viðskiptamanna.

Í fyrri útgáfunni situr miðaldra þeldökkur maður í miðjunni en í breyttri útgáfu auglýsingarinnar hefur verið skipt um höfuð á manninum og höfuð hvíts manns sett í staðinn. Annað er þó óbreytt og sést ekki betur en að svört hönd standi enn þá fram úr erminni. Talsmenn Microsoft fölnuðu upp þegar flett var ofan af þessu og gátu ekki aðrar skýringar gefið en auglýsingunni hefði verið beint að pólskum markaði og þar í landi væru flestir hvítir.

Þó væri verið að rannsaka með hvaða hætti þessi sérkennilegu skipti hefðu átt sér stað og væri hér um augljós markaðsmistök að ræða. Hefur fyrirtækið sent frá sér einlæga afsökunarbeiðni í kjölfar málsins sem þykir allt hið vandræðalegasta fyrir hugbúnaðarrisann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×