Viðskipti innlent

Gera ráð fyrir 25 milljóna hagnaði hjá Kópavogi

Í tillögu að fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2010, sem lögð er fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs í dag, er gert ráð fyrir 25 milljóna króna rekstrarafgangi.

Í tilkynningu um málið til kauphallarinnar segir að áætlunin sé raunhæf og ábyrg. Með henni er frekari vexti á kostnaði hamlað en áfram staðinn vörður um grunnþjónustu og velferðarmál.

Áætlunin gerir ráð fyrir auknum framlögum til fræðslusviðs og félagsþjónustu með hliðsjón af ástandi

þjóðmála en þó er gerð krafa um hagræðingu á þeim sviðum ekki síður en öðrum.

Gjaldskrárbreytingum er stillt í hóf og verða þær innan marka almennra verðlagshækkana. Í sumum tilvikum breytist afgreiðslutími stofnana.

Framkvæmdum er haldið í lágmarki en þó þannig að öllu nauðsynlegu viðhaldi verður sinnt. Beitt er auknu aðhaldi á öllum sviðum sem felur í sér minni sveigjanleika í rekstri en nýtur á uppgangstímum.

Heildartekjur Kópavogsbæjar árið 2010 eru áætlaðar rúmir 18 milljarðar króna. Þar af er áætlað að skatttekjur nemi rúmum 13 milljörðum króna. Um 60% af skatttekjum fara til reksturs á fræðslusviði, rúm 8% í félagsþjónustu og rúm 10% til æskulýðs- og íþróttamála.

Þótt reiknað sé með auknu atvinnuleysi í bænum er talið að útsvarstekjur verði svipaðar milli ára vegna fjölgunar íbúa og samningsbundinna launahækkana.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×