Viðskipti innlent

Greining: Atvinnuleysið nær hámarki í mars/apríl næsta ár

Greining Íslandsbanka reiknar með því að atvinnuleysið á landinu nái hámarki í mars/apríl á næsta ári. Tekur greiningin þar mið af nýjustu upplýsingum frá Vinnumálastofnun um m.a. hópuppsagnir sem koma til framkvæmda á næstu mánuðum.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að í lok nóvember voru rúmlega 15 þúsund einstaklingar atvinnulausir og líkt og undanfarna mánuði var um helmingur þeirra sem hafði verið atvinnulaus í 6 mánuði eða lengur.

Mikil fjölgun er milli mánaða í hópi þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meira en ár en í lok nóvember voru þeir alls um 2.505 talsins en höfðu verið 1.700 í lok október. Þetta jafngildir því að þeim hafi fjölgað um 47% í mánuðinum. Þess má geta að á sama tíma fyrir ári síðan höfðu 244 einstaklingar verið án atvinnu í ár og hefur fjöldi þeirra þar með ríflega tífaldast á einu ári.

Horfur er á áframhaldandi fjölgun þessa hóps en ríflega 3 þúsund manns hafa verið án atvinnu í 9 til 12 mánuði. Þróun í þessa átt getur leitt til þess að erfiðara verður að vinda ofan af atvinnuleysinu þegar birtir til í efnahagslífinu, en að jafnaði fá þeir sem lengst hafa verið án atvinnu seinna vinnu en aðrir þegar atvinnuleysi fer minnkandi.

Í nóvembermánuði bárust Vinnumálastofnun 3 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem sagt var upp 118 manns og koma þær til framkvæmda á tímabilinu janúar til mars á næsta ári. Er nú áætlað að um 50 manns komi til með að missa vinnuna nú í desember vegna hópuppsagna, ríflega 110 manns í janúar, um 40 manns í febrúar og 30 í mars.

„Ekki er við öðru að búast en að atvinnuleysi haldi áfram að aukast á næstu mánuðum, þá hvort tveggja vegna árstíðarsveiflu og vaxandi slaka í hagkerfinu. Yfirleitt versnar atvinnuástandið frá nóvember til desember og samkvæmt Vinnumálastofnun bendir þróun síðustu vikna til að svo verðir raunin einnig í ár. Áætlar stofnunin að atvinnuleysi komi til með að verða á bilinu 8,1%-8,6% nú í desember. Má því gera ráð fyrir að atvinnuleysi komi til með að hækka nokkuð hratt á næstu mánuðum og reiknum við með að það nái hámarki í mars/apríl 2010," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×