Viðskipti innlent

Lokið við bráðabirgðaverðmat eigna

í apríllok funda samningsaðilar vegna eignaskipta gömlu og nýju bankanna um tæknilega þætti í nýjum skýrslum.Fréttablaðið/Samsett mynd
í apríllok funda samningsaðilar vegna eignaskipta gömlu og nýju bankanna um tæknilega þætti í nýjum skýrslum.Fréttablaðið/Samsett mynd

Fullnaðarútgáfa úttektar á verðmati eigna sem fluttar voru úr gömlu bönkunum í þá nýju og úttekt á framkvæmd á vinnslu verðmats eigna bankanna liggur væntanlega fyrir í næstu viku, samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu (FME).

„Deloitte LLP hefur lokið bráðabirgðaverðmati þeirra eigna sem fluttar voru út úr gömlu bönkunum til að mynda efnahag Nýja Kaupþings banka, NBI og Íslandsbanka. Samhliða vinnslu verðmatsins hefur Oliver Wyman yfirfarið framkvæmd þess fyrir hvern banka,“ segir í tilkynningu FME, en skýrslurnar skiptast í tvo hluta. „Í fyrri hluta er lýst aðferðafræði og forsendum og birtar niðurstöður sem lúta að því að verðmæti eignanna sem fluttar voru úr bönkunum liggi á tilteknu verðbili. Í síðari hluta er að finna mat á einstökum eignum. Þessi hluti hefur að geyma viðkvæmar upplýsingar og er bundinn ríkum trúnaði.“

FME hefur jafnframt birt áætlun um kynningu á skýrslunum og segir nauðsynlegt að upplýsingar um verðmat séu fyrst birtar samningsaðilum og þeim gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra. „Þegar samningar hafa náðst verður samantekt á efni skýrslnanna gerð opinber. Í skýrslunum er meðal annars að finna viðkvæmar og verðmyndandi upplýsingar og því er ekki unnt að birta þær opinberlega að svo stöddu,“ segir á vef FME. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×