Viðskipti innlent

Frétt á Bloomberg olli fjaðrafoki hjá Kaupþingi

Frétt á Blomberg fréttaveitunni í gærdag um að aðeins 20% fengjust upp í kröfur í þrotabú Kaupþings olli nokkru fjaðrafoki meðal kröfuhafanna. Sökum þessa setti skilanefnd Kaupþings tilkynningu inn á vefsíðu sína þar sem segir m.a. að enn sé óljóst hve mikið fæst upp í kröfurnar.

Fréttin á Bloomberg, skrifuð af Ómari R. Valdimarssyni, hefur nú verið leiðrétt en í henni var stuðst við tölur frá því í nóvember í fyrra skömmu eftir hrun bankans. Síðan þá hefur mikið verk verið unnið við að hámarka andvirði eigna Kaupþings og ljóst að endurheimturnar verða töluvert hærri en fréttin á Bloomberg gaf til kynna.

Í tilkynningunni frá skilanefndinni segir m.a.: „Á þessu stigi er ómögulegt að áætla nákvæmlega hvers virði kröfurnar gegn bankanum eru og andvirði endurheimta af eignum bankans. Markmið skilanefndarinnar hefur verið að verja eignirnar og hámarka endurheimtur þeirra fyrir kröfuhafanna."

Fram kemur að nýjustu tölur um eignir bankans hafi verið settar fram í febrúar s.l. og hafi það mat byggt á áætlun um sölu þeirra þann 15. nóvember í fyrra. „Þetta mat tekur ekki mið af núverandi áætlun skilanefndar að styðja við og vernda eignirnar. Engin tilraun var gerð á þeim tíma til að meta framtíðar virði eignanna né hve mikið kröfuhafar fengju í sinn hlut."

Reikna má með að yfir 30.000 kröfuhafar muni gera kröfur í þrotabú Kaupþings enda er gjaldþrotið eitt það stærsta í heimssögunni. Kröfulýsingarfresti lýkur um næstu áramót.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×