Viðskipti innlent

Afleiður eru þriðjungur af eignum Kaupþings

Heildareignir Kaupþings banka, að teknu tilliti til veðsettra eigna og forgangskrafna, voru metnar á 775 milljarða kr. þann 30/6 2009. Af þeim eignum voru afleiðusamningar metnir á 246 milljarða kr. eða um þriðjungur en á móti þeim hafa mótaðilar lagt að veði reiðufé og aðrar tryggingar að fjárhæð 143 milljarðar kr.

Samkvæmt upplýsingum úr uppfærðri skýrslu skilanefndar Kaupþings til kröfuhafa er eitt af fjölmörgum verkefnum sem skilanefndin hefur fengist við undanfarið ár er að gera upp afleiðusamninga. Til að aðstoða við það verkefni hefur nefndin ráðið sérfræðinga frá Alvarez and Marsal ("A&M") og lögfræðiráðgjafa frá Olswang.

Markmiðið er að endurheimta sem allra mest í þágu kröfuhafa. Vinnan, sem staðið hefur yfir undanfarna mánuði, gengur út á að yfirfara afleiðusafnið og í kjölfarið að tryggja að hámarksheimtur náist á safninu.

Erlendu ráðgjafarnir munu styrkja það teymi sérfræðinga hjá skilanefndinni sem hefur unnið að verkefninu hingað til. Verkefnum er forgangsraðað eftir stærð samninga. Samningsaðilar bankans eru 350 talsins, bæði innlendir og erlendir aðilar, og um er að ræða 2.500 einstaka samninga.

Dæmi um afleiður eru framvirkir samningar, valréttur (kaup- og söluréttur) og vaxtaskiptasamningar. Til að útskýra afleiðu á einfaldan hátt má nefna einfalt dæmi sem þetta:

Þú kaupir 100 tonn af áli með framvirkum samningi til þriggja mánaða.. Samkvæmt samningum skuldbindur þú þig til að kaupa framangreint magn á 2000 dollara tonnið eftir þrjá mánuði. Ef álverðið er 2000 dollara eftir þrjá mánuði þegar samningurinn er gerður upp ertu á sléttu. Ef verðið er 1.900 dollarar tapar þú 100 dollurum á tonnið. Ef það er 2.100 dollarar græðir þú 100 dollara á tonnið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×