Viðskipti innlent

Óttast ekki að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gylfi Magnússon sagði að ef Straumur hefði fengið greiðslustöðvun hefði innistæðukerfið getað beðið hnekki. Mynd/ Anton Brink.
Gylfi Magnússon sagði að ef Straumur hefði fengið greiðslustöðvun hefði innistæðukerfið getað beðið hnekki. Mynd/ Anton Brink.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að ef Straumur hefði verið sett í greiðslustöðvun eins og stjórn og stjórnendur bankans óskuðu eftir í stað þess að skilanefnd yrði sett yfir bankann samkvæmt neyðarlögunum hefðu innistæður geta legið þar inni í ófyrirséðan tíma. Gylfi sagði, á opnum fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun, að það hefði getað grafið undan trausti á innistæðukerfinu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þannig að jafnvel þó að hið opinbera hefði gefið út að innistæður væru tryggar þá hefðu þær geta legið þar inni um langan tíma.

Gylfi sagði að farið væri með þrotabú Straums nánast eins og önnur bú og kröfuhafar ekki hlunnfarnir á nokkurn hátt. Hann gæti því ekki séð að ríkið hafi skapað sér skaðabótaskyldu með nokkrum hætti. Gylfi sagði að hrun Straums, SPRON og Sparisjóðabankans væri í raun framhald af því hruni sem hefði orðið í haust. Eiginfjárstaða SPRON hefði þó verið svo slæm fyrir bankahrunið að bankinn hefði verið kominn í þrot fyrir þann tíma.

Davíð Oddsson sagði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi að íslenska ríkið hefði hugsanlega skapað sér skaðabótaskyldu vegna hruns Straums.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×