Viðskipti innlent

Gjaldeyrisverðmæti upp á 300 milljónir flæða um Norðfjarðarhöfn

Á sólarhring frá því síðustu nótt og fram á næstu nótt munu gjaldeyrisverðmæti upp á um 300 milljónir kr. flæða í gegnum Norðarfjarðarhöfn. Þetta kemur fram í grein sem Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. skrifar á vefsíðu fyrirtækisins í dag.

Þar segir að starfsemi í frystihúsi Síldarvinnslunnar hf. hófst aftur í nótt eftir sumarfrí. Börkur NK kom með 900 tonn af síld til vinnslu í frystihúsinu. Bjarni Ólafsson er á landleið með 600 tonn af síld til vinnslu.

Vilhelm Þorsteinsson EA, vinnsluskip Samherja hf., og Hákon EA, vinnsluskip Gjögurs hf., eru að landa fullunnum síldarafurðum í frystigeymslu Síldarvinnslunnar hf. samtals um 1.200 tonn af afurðum sem skiptast í síldarflök, heilfrysta síld og makríl.

Áætluð verðmæti sem fara um höfnina þennan sólarhringinn eru um 300 milljónir.

Makrílmeðafli hefur verið að aukast aftur hjá skipunum og eru skipin að landa núna 15-20% makríl sem meðafla. Vinnsluskipin eru að landa frosnum makríl að verðmæti um 40 milljónir en það er þrefalt meira verðmæti en ef honum væri landað til bræðslu.

Sömu sögu er að segja af vinnslunni í landi en þar er reynt að frysta allan þann makríl sem hægt er. Því er brýnt að endurskoða sem fyrst gildandi reglur um meðaflaprósentu á síldveiðum svo flotinn stöðvist ekki og mikil verðmæti renni Íslendingum úr greipum.

„Það er reyndar mjög undarleg staða að vera með jafn verðmætan fisk og makríl hérna við bæjardyrnar og geta ekki fiskað hann til manneldisvinnslu. Því skora ég á stjórnvöld að endurskoða strax gildandi reglur. Ég tel mjög mikilvægt að allt verði gert til að manneldisvinnsla um borð í vinnsluskipum og landvinnslum hérlendis geti haldið áfram," segir Gunnþór.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×