Viðskipti innlent

Segir Icesave-samning óskýran og ósanngjarnan

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Breska lögmannsstofan Mishcon de Reya telur að Icesave-samningurnn sé bæði óskýr og ósanngjarn. Stofan telur jafnframt að samningurinn heimili ekki stofnun nýs tryggingarsjóðs innstæðueigenda, en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram á Alþingi. Enginn ágreiningur er þó við Breta og Hollendinga um það, segir viðskiptaráðherra.

Breska lögfræðistofan Mishcon de Reya skilaði í gær áliti til fjárlaganefndar Alþingis, um samninginn við Breta og Hollendinga um Icesave, en lögmannsstofan telur að samningurinn sé bæði óskýr og ósanngjarn.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um stofnun nýs tryggingarsjóðs innstæðueigenda en frumvarp þess efnis er hluti af heildrænni endurskoðun á regluverki íslensks viðskiptalífs. Í áliti Mishcon de Reya segir að samningurinn um Icesave leyfi ekki stofnun slíks sjóðs á gildistíma samningsins.

Gylfi Magnússon sagði í samtali við fréttastofu nú í morgun að það hefði lengi legið fyrir að ekki væri hægt að afnema eldri lagaákvæði um Tryggingarsjóð innstæðueigenda- og fjárfesta. Í lagafrumvarpinu, sem nú hefur verið lagt fram, væru bráðabirgðaákvæði um að tiltekin ákvæði um gamla sjóðinn yrðu áfram í gildi þangað til að hann hefði staðið við sínar skuldbindingar vegna Icesave.

Gylfi sagði að enginn ágreiningur væri við Breta og Hollendinga um þetta. Hann sagði jafnframt að Bretar og Hollendingar settu sig ekki upp á móti stofnun nýs sjóðs, enda væri framtíðarskipulag um innstæðutryggingar hér á landi ekki eitthvað sem hefði þýðingu fyrir hagsmuni þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×