Viðskipti innlent

Afnám hafta hækkar gengi krónunnar

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Greining Íslandsbanka telur að við afnám gjaldeyrishafta muni gengi krónunnar styrkjast en misjafnar skoðanir eru á því. Seðlabankinn hefur opinberlega tilkynnt um áætlun um afnám haftanna.

Dregið verður úr höftunum í skrefum eins og komið hefur fram og alls er óvíst hversu langur tími líður þar til höftunum verður fullkomlega aflétt. Bankinn telur að fljótlega verði höftum aflétt af öllu innflæði fjármagns.

Greiningin segir að opnun á innstreymi fjármagns en áframhaldandi höft gæti átt eftir að virka sem hvati fyrir eigendur gjaldeyris til þess að selja hann fyrir krónur.

Það að fullkomin fleyting sé ekki handan við hornið gæti þýtt að þeir sem liggja á gjaldeyri fari að horfa meira í vaxtamuninn milli krónunnar og erlendra mynta og þar með fórnarkostnaðinn af því að liggja með gjaldeyri inn á lágvaxta gjaldeyrisreikningum.

Þetta þýðir einfaldlega að Íslandsbanki telur að eftirspurn eftir íslenskum krónum muni aukast með tilheyrandi hækkun á gengi krónunnar.

Á hinn bóginn gæti þetta átt eftir að hafa þau áhrif að skil á útflutningstekjum til innlendra bankastofnanna verði verri en raunin er nú og að menn muni eflast enn frekar í því að finna leiðir framhjá höftunum.

Þar með fái útflutningsfyrirtæki fleiri krónur í vasann fyrir gjaldeyristekjur sínar á erlendum mörkuðum og komast þar af leiðandi hjá því að eiga viðskipti við innlendar fjármálastofnanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×