Viðskipti innlent

Vill að stýrivextir lækki um 3 prósentustig

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Egilsson segir raunhæft að lækka stýrivexti um þrjú prósentustig.
Vilhjálmur Egilsson segir raunhæft að lækka stýrivexti um þrjú prósentustig.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vill sjá þriggja prósentustiga stýrivaxtalækkun á morgun. „Ég myndi vilja sjá að það væri lækkun um þrjú prósentustig og að vaxtastigið lækkaði um samsvarandi," segir Vilhjálmur.

Seðlabankastjóri tilkynnir ákvörðun peningastefnunefndar um stýrivexti á morgun. Spá skuggabankastjórnar Fréttablaðsins er öllu hóflegri en óskir Vilhjálms en skuggabankastjórnin gerir ráð fyrir lækkun um eitt prósent. Vilhjálmur telur hins vegar að óskir sínar séu raunhæfar. „Í sumar var það talið raunhæft og það sem var til þess að tefja vaxtalækkun voru atriði sem nú er búið að leysa," segir Vilhjálmur, en þar á hann við Icesave deiluna, endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætluninni og endurskoðun bankanna.

Stýrivextir eru nú 12%. Í minnisblaði sem ríkisstjórnin sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og birt var í gær segjast stjórnvöld munu halda áfram að fylgjast með gengisstöðugleika og séu tilbúin til að herða enn frekar á peningastefnunni ef þörf krefur. Vilhjálmur tekur illa í þær hugmyndir. „Ef að menn ætla sér að fá almennar fjárfestingar í gang í atvinnulífinu þá þarf að lækka vextina. Þessar forsendar sem menn eru að gefa sér á næsta ári um fjárfestingar í atvinnulífinu eru úti í loftið nema að menn lækki vexti," segir Vilhjálmur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×