Viðskipti innlent

Hlutabréfaveltan 76 milljónir á dag í kauphöllinni í október

Heildarviðskipti með hlutabréf í októbermánuði námu rúmum 1.667 milljónum eða tæpum 76 milljónum á dag í kauphöllinni. Til samanburðar var veltan með hlutabréf í septembermánuði rúmir 13 miljarðar kr. en viðskipti í tengslum við yfirtökutilboð í hlutabréf Alfesca og sölu Exista á eignarhlut sínum í Bakkavör námu samtals um það bil 10,5 milljörðum af heildarveltu þess mánaðar.

Í tilkynningu segir að mest voru viðskipti með bréf Össurar (OSSR) 761 milljónir og með bréf Marels (MARL) 706 milljónir í október. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga var 181 milljarður í lok október og lækkaði um 12% á milli mánaða.

Markaðsvirði bréfa Össurar nam tæpum 55 milljörðum og er það félag stærst að markaðsvirði skráðra félaga. Næst í stærð er Marel en markaðsvirði þess nemur tæpum 42 milljörðum og síðan bréf Føroya Banki, en markaðsvirði þess er tæpir 35 milljarðar.

Úrvalsvísitalan (OMXI6) hækkaði um 0,35% milli mánaða og stendur nú í 812,1 stigum. Af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala iðnaðar (IX20PI) mest eða 6,4%.

Á aðalmarkaði kauphallarinnar var Nýi Kaupþing banki með mestu hlutdeildina 38,5% (29,2% á árinu), Saga Capital með 20% (16% á árinu) og Íslandsbanki með 15,8% (11,6% á árinu).

Heildarviðskipti með skuldabréf námu rúmum 267 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 12,2 milljarða veltu á dag. Í septembermánuði nam veltan 259 milljörðum á dag. Mest voru viðskipti með lengstu flokk ríkisbréfa, RIKB 19 0226 46 milljarðar og þá með RIKB 25 0612 44 milljarðar.

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 150,8 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 96,9 milljörðum. Heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa nam rúmum 1.327 milljörðum og hækkaði um 0,29% milli mánaða.

Í októbermánuði var MP Banki með mestu hlutdeildina 34,8% (30,8% á árinu), Íslandsbanki með 25,9% (28,1% á árinu) og NBI með 14% (13,2% á árinu).










Fleiri fréttir

Sjá meira


×