Viðskipti innlent

Kári áfram stjórnarformaður ÍE, nýr forstjóri ráðinn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), segir að kaup Saga Investments á fyrirtækinu eigi að tryggja fé til rekstrar ÍE næstu tvö árin. Kári verður sjálfur áfram í forystuhlutverki hjá ÍE sem starfandi stjórnarformaður, en líklega verður nýr forstjóri ráðinn til félagsins.

DeCode Genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar hefur sótt um greiðslustöðvun fyrir bandarískum dómstólum. Saga Investments, þekktur fjárfestir á sviði líftækni, hefur jafnframt gert tilboð í Íslenska erfðagreiningu. Kári Stefánsson segir að samkomulag við Saga muni tryggja fé til að reka ÍE næstu tvö árin, en það er háð samþykki dómstóla.

DeCode Genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sótt um greiðslustöðvun fyrir bandarískum dómstólum, en umsóknin var lögð fram seint í gær og í henni kemur fram að heildareignir fyrirtækisins í lok júní hafi numið um 70 milljónum bandaríkjadala eða 7,4 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma námu heildarskuldir félagsins 313 milljónum dollara eða tæpum 39 milljörðum íslenskra króna.

DeCode hefur jafnframt gert samkomulag við Saga Investments, sem er í eigu þekktra fjárfesta á sviði líftækni vestanhafs, um kaup á Íslenskri erfðagreiningu og allri starfsemi þess. Tilboð Saga Investments var lagt fram til dómara ásamt beiðni um greiðslustöðvun. Í tilboðinu er gert ráð fyrir að starfsemin á Íslandi haldi áfram og að starfsmenn ÍE haldi störfum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×