Viðskipti innlent

Undrast að aðrir fari ekki sömu leið og Íslandsbanki

Neytendasamtökin segja að það veki athygli í allri umræðunni um skuldir almennings að Íslandsbanki hefur einn fjármálastofnana boðið viðskiptavinum sínum lækkun höfuðstóls lána vegna bankahrunsins. Undrast neytendasamtökin það að aðrir ríkisbankar fari ekki sömu leið.

Í umfjöllun um málið á vefsíðu Neytendasamtakana segir að Íslandsbanki hafi auglýst tilboð sín um skuldbreytingar á verðtryggðum húsnæðislánum og erlendum húsnæðislánum í óverðtryggð lán með greiðslujöfnun.

Aðrir bankar, sparisjóðir eða lífeyrissjóðir hafa ekki enn boðið heimilum slík úrræði. Hvers vegna skyldi Íslandsbanki velja þessa leið? Er spurt á vefsíðunni.

Er hann betur í stakk búinn til þess að bjóða höfuðstólslækkun en aðrir bankar? Getur verið að bankinn hafi séð fram á að hann yrði hvort eð er óhjákvæmilega fyrir áföllum vegna greiðsluvandræða skuldaranna? Getur verið að hann meti það svo að betra sé að gefa eftir af lánunum strax til að forðast útgjöld og töp síðar?

Síðan segir að ef til vill líti bankinn á þessa aðgerð sem fjárfestingu í viðskiptavinum sínum. Vandi skuldaranna er mjög víðtækur og lækkun skulda gæti hugsanlega rétt hag margra. Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að 20% einstaklinga í landinu séu tæknilega gjaldþrota, og 20% til viðbótar ráði varla við að greiða skuldir sínar.

Neytendasamtökin undrast að vinnubrögð bankanna skuli ekki vera samræmd. Ekki er hægt að tala um samkeppni á þessum markaði með ríkið sem eiganda stærstu bankanna og auk þess færa viðskiptavinir sig ekki svo létt á milli banka með lánin sín.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×