Viðskipti innlent

AGS: Tiltekur 19 milljarða lán frá ESB til Íslands

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) tiltekur í vinnuskýrslu sinn um Ísland sem birt var í gærdag að í stað 500 milljón dollara láns frá Rússum megi eiga von á 150 milljóna dollara, eða tæpa 19 milljarða kr., láni frá Evrópusambandinu auk þess sem verulegur hluti veðlánalínu við BIS (Seðlabanki seðlabanka í Basel) sé enn ónýttur og síðast en ekki síst hafi áætlunin upphaflega gert ráð fyrir 250 milljón dollara meiri fjármögnun en þörf var á.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þrátt fyrir að Rússar hafi gengið úr skaftinu sem lánveitendur innan vébanda áætlunar AGS og stjórnvalda telur sjóðurinn að fjármögnun áætlunarinnar sé tryggð. „Lán ESB er áhugavert í þessu samhengi, en fyrst var imprað á því á haustdögum án þess að tilgreint væri nákvæmlega um hvað væri að ræða," segir í Morgunkorninu.

Í skýrslu sinni tekur AGS fram að erlendar skuldir þjóðarbúsins hafi reynst meiri en vænst var fyrir ári síðan. Hins vegar bendir sjóðurinn á að verulegur hluti þeirrar aukningar skrifist á lánveitingar milli móður- og dótturfélags einnar tiltekinnar fyrirtækjasamstæðu. Í fjölmiðlum hefur reyndar komið fram að hér er um Actavis að ræða.

Telur sjóðurinn því eftir sem áður að ef farið verður eftir aðgerðaáætluninni muni erlendar skuldir verða viðráðanlegar næstu árin og hjaðna jafnt og þétt þegar frá líður, jafnvel þótt frekari áföll ríði yfir þjóðarbúið á tímabilinu.

Athygli vekur hins vegar að sjóðurinn tiltekur að fullur og staðfastur pólitískur stuðningur við áætlunina sé nauðsynlegur fyrir framgang áætlunarinnar. „Má velta því fyrir sér hvort þarna sé verið að brýna stjórnarflokkana til samstöðu um áætlunina, en eins og kunnugt er hafa óánægjuraddir um hana verið býsna háar meðal annars stjórnarflokksins," segir í Morgunkorninu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×