Erlent

Gordon Brown lofaði 1 milljón sterlingspunda vegna flóðanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gordon Brown forsætisráðherra Breta hitti íbúa á Cumbria svæðinu. Mynd/ AP.
Gordon Brown forsætisráðherra Breta hitti íbúa á Cumbria svæðinu. Mynd/ AP.
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, ætlar að verja 1 milljón sterlingspunda, eða 200 milljónum íslenskra króna, til að hjálpa fólki sem á um sárt að binda eftir úrhellisrigningar og stórflóð á Kumbríu svæðinu að undanförnu. Þessari upphæð verður varið til viðbótar við þá upphæð sem þegar hefur verið varið til björgunaraðgerða.

Brown tilkynnti þetta þegar að hann heimsótti flóðasvæðin í dag. Þar hitti hann björgunarfólk og íbúa sem höfðu rýmt húsin sín. Í Daily Telegraph kemur fram að björgunarfólk ráðleggur íbúum að snúa ekki strax aftur að heimilum sínum því að von sé á enn frekari rigningum.

Í borgum og bæjum í Kumbríu hefur verið slíkur vatnselgur á götum að fólk hefur varla getað staðið af sér strauminn ef það reynir að komast á milli húsa. Bílar og annað brak hefur skapað stórhættu þar sem það berst með straumnum. Þá hefur vatnselgurinn einnig sópað burt brúm. Á þessari stundu er ekki vitað hversu margir hafa farist.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×