Erlent

Tugir látnir í helkulda í Evrópu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mikið hefur snjóað í London jafnt sem annars staðar í álfunni.
Mikið hefur snjóað í London jafnt sem annars staðar í álfunni.

Ískuldi og fannfergi í Evrópu urðu tugum að bana um helgina og samgöngur um alla álfuna eru gengnar úr skorðum.

Þrátt fyrir að ískaldur vindur næði nú um Reykjavík og fremur napurt sé um að litast utandyra er hér á landi sennilega besta veðrið í Evrópu. Mikil snjókoma og ískuldi hefur orðið fjölda manns að bana í álfunni og nú, rétt fyrir jól, þegar hundruð þúsunda ef ekki milljónir undirbúa ferðalög heim eða í heimsóknir til annarra yfir hátíðirnar, eru samgöngur um alla Evrópu að tefjast eða stöðvast. Þjóðverjar fengu að finna fyrir 33 stiga frosti um helgina en þar varð kaldast í Evrópu.

Þegar almenningssamgöngur tóku að bregðast vegna þessa og mikils fannfergis gripu menn til einkabílsins með skelfilegum afleiðingum en þýska lögreglan skráði 500 umferðarslys af ýmsu tagi bara á laugardaginn. Flugvellir víða í Frakklandi og Þýskalandi hafa hreinlega lokað dyrum sínum og aflýst öllu flugi en aðrir reyna við illan leik að halda áætlun, svo sem Schiphol í Amsterdam og Heathrow-flugvöllurinn í London en flug um þessa velli hefur þó tafist mikið og bíður mannmergð ráðvilltra farþega á völlunum. Þá hafa tugir manna orðið úti um helgina, flestir í Póllandi og Úkraínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×