Viðskipti innlent

Ríkið borgar 46 milljörðum minna í vexti vegna bankanna

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að endurreisn stóru bankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Nýja Landsbankans geri það að verkum að vaxtagreiðslur ríkisins minnki um 46 milljarða kr. á þessu ári og hinu næsta.

Þetta kemur fram í grein sem Steingrímur ritar í Viðskiptablaðið í dag undir fyrirsögninni „Endurreisn íslensku bankanna". Þar kemur fram að ríkið hafi lagt þessum bönkum til 135 milljarða kr. Hinsvegar hafi upprunalegar áætlanir gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins vegna endurreisnarinnar myndu nema 385 milljörðum kr. Þarna munar sumsé 250 milljörðum kr.

Af þessari upphæð, 135 milljörðum kr., fóru 122 milljarðar kr. í Landsbankann, 10 milljarðar kr. í Arion og 3 milljarðar kr. í Íslandsbanka. Þar að auki veitir ríkið Arion víkjandi lán upp á 24 milljarða kr. og Íslandsbanka víkjandi lán upp á 25 milljarða kr.

Munurinn er sumsé 200 milljarðar kr. ef fyrrgreind lán eru tekin með í dæminu en þau bera vexti. Steingrímur segir: „Þessi niðurstaða felur í sér að vaxtakostnaður ríkissjóðs verður um 46 milljörðum kr. minni strax á þessu ári og næsta. Sé eingöngu horft til áhrifa þess að Arion banki og Íslandsbanki fari í eigu kröfuhafa lækkar vaxtakostnaðurinn samtals um 21 milljarð kr. árin 2009 og 2010."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×