Viðskipti innlent

Starfsánægja Íslandsbankafólks í sögulegu hámarki

Valur Grettisson skrifar
Birna Einarsdóttir segir starfsfólk mjög ánægt hjá bankanum.
Birna Einarsdóttir segir starfsfólk mjög ánægt hjá bankanum.

„Við vorum að fá niðurstöðu úr svona starfsmannakönnun þar sem er verið að mæla starfsánægju, og í henni kemur fram að starfsandi í bankanum er í sögulegu hámarki," segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka í viðtali við netvarpið.is.

Hún segir að starfsmenn bankans hafi verið miður sín eftir bankahrunið en því hafi verið mætt með öflugri stefnumótunarvinnu. Það hafi hjálpað.

Þá var gerð starfsmannakönnun þar sem starfsánægja var mæld og í ljós kom að starfsmennirnir hafa aldrei verið jafn hamingjusamir í starfi. Ekki kom fram í viðtalinu hvort hliðstæð könnun hafi farið fram árið 2007.

Alls starfa níuhundruð manns hjá bankanum en flestir störfuðu einnig hjá Glitni áður.

Í viðtalinu kom einnig fram að bankinn hyggi á frekari landvinninga erlendis en hann hefur sérhæft sig í sjávarútvegi og orkumálum að sögn Birnu.

Hún segir að það hafi verið kannað hvort nafn Íslands hefði eyðilagst eftir hrunið varðandi þessa tvo iðnaði og að sögn Birnu kom í ljós að Ísland er enn virt á sviðum fiskveiða og orkunýtingar.

„Við erum enn þá virt á þessum tveimur syllum ef við getum kallað það svo," segir Birna um hugsanlega útrás bankans í framtíðinni.

Í lok viðtalsins er Birna spurð hvort hún hafi orðið fyrir pólitískum þrýstingi eftir að ríkið tók yfir bankann. Hún segir svo ekki vera.

„Það kom mér ánægjulega á óvart að það er ekkert um slíkt," segir Birna að lokum.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×