Innlent

Leggja milljarða í nýtt einkasjúkrahús

Mögulegt er að sjúkrahús og hótel rísi í nágrenni Reykjalundar í Mosfellsbæ, en einnig er verið að skoða lóðir á Álftanesi og í Garði.FRéttablaðið/GVA
Mögulegt er að sjúkrahús og hótel rísi í nágrenni Reykjalundar í Mosfellsbæ, en einnig er verið að skoða lóðir á Álftanesi og í Garði.FRéttablaðið/GVA
Stefnt er að því að einkarekið sjúkrahús sem mun sérhæfa sig í mjaðma- og hnjáliða­aðgerðum á erlendum ríkisborgurum verði opnað hér á landi síðla árs 2011 eða snemma árs 2012.

Forsvarsmenn verkefnisins skoða nú lóðir á Álftanesi, í Garði og Mosfellsbæ. Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare, segir að vonandi verði hægt að taka ákvörðun um staðsetningu á næstu vikum.

Kostnaður við uppbyggingu sjúkrahússins er áætlaður á bilinu 100 til 150 milljónir Bandaríkjadala, eða þrettán til nítján milljarðar króna, segir Gunnar. Verkið verði fjármagnað bæði af innlendum og erlendum aðilum.

Áformað er að reisa sjúkrahús með 120 herbergjum, sem geti annað allt að sex þúsund sjúklingum á ári. Gunnar segir að á sömu lóð verði reist hótel með 220 herbergjum. Algengt er að ættingjar fylgi fólki sem ferðast til að fara í mjaðma- og hnjáliðaaðgerðir.

Talsverðan fjölda starfsmanna þarf fyrir bæði sjúkrahúsið og hótelið. Gunnar segist reikna með í það minnsta 600 starfsmönnum, og hugsanlega allt að 1.000.

Sjúklingar munu aðallega koma frá Bandaríkjunum og Evrópu. Gunnar segir að sjúkrahúsið sé ekki hugsað til að sinna íslenska markaðinum, en kjósi Íslendingar að kaupa sér heilbrigðisþjónustu á eigin kostnað sé það þeim í sjálfsvald sett. Þeir geti það nú þegar hjá öðrum einkareknum sjúkrahúsum utan landsteinanna.

Lítið hefur farið fyrir samráði við heilbrigðisráðuneytið. Gunnar segir að óskað hafi verið eftir viðtali við heilbrigðisráðherra í lok ágúst, en ekki hafi tekist að finna tíma til að funda með honum.

„Þetta yrði geysileg lyftistöng fyrir bæinn, og ég er viss um að bæjarbúar myndu taka þessu fyrir­tæki fagnandi," segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur lýst eindregnum stuðningi við byggingu sjúkrahúss PrimaCare á Íslandi. Haraldur segir það heiður fyrir bæjarfélagið að til greina komi að fyrirtækið byggi upp starfsemi sína í Mosfellsbæ.

Bærinn hefur boðið forsvarsmönnum PrimaCare aðstöðu á fjórum stöðum í bæjarfélaginu: á lóð Reykjalundar, í Skammadal austan við Reykjalund, á Sólvöllum fyrir ofan Akra og í Reykjahlíð í námunda við Tungumela, segir Haraldur. Hann segir fyrirtækið þurfa um fjögurra hektara lóð, og nægt pláss sé fyrir starfsemina í bæjarfélaginu. brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×