Viðskipti innlent

Alfesca boðar hluthafafund innan 14 daga

Í samræmi við lög um hlutafélög og samþykktir Alfesca hf. mun stjórn félagsins boða til hluthafafundar innan 14 daga. Nánari upplýsingar um fundardag, fundartíma og fundarstað hluthafafundar verða birtar innan skamms.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir einnig að með bréfi dags. 30. júlí 2009 óskuðu Rekstrarfélag Nýja Kaupþings banka hf. vegna sjóðanna Kaupthing ÍS-5, Kaupþing ÍS-15 og ICEQ verðbréfasjóðs, Gildi lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóður eftir að boðað yrði til hluthafafundar í Alfesca hf.

Framangreindir aðilar eru eigendur að 679.756.524 hlutum í Alfesca hf. eða 11,57% hlutafjár. Óskað er eftir að á fundinum verði tekið til umfjöllunar yfirtökutilboð Lur Berri Iceland ehf. til hluthafa félagsins, dags. 25. júní 2009, fyrirhuguð afskráning félagsins og matsgerðir um verðmæti hlutabréfa þess.

Eins og fram kemur í frétt hér á síðunni liggja fyrir tvær matsgerðir á verðmæti hluta í Alfesca og munar töluverðu á þeim. Annars vegar var verðmat unnið af Saga Capital sem telur tilboðsgengi Lur Berri Iceland ehf. á kr. 4,5 per hlut til hluthafa Alfesca hf. sanngjarnt.

Hins vegar var verðmat unnið af IFS Ráðgjöf ehf. sem telur verðmæti hvers útistandandi hlutar í Alfesca hf. vera kr. 8,0 per hlut. Meðal annars á að ræða þessi verðmöt á fundinum sem ofangreindir aðilar hafa krafist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×