Viðskipti innlent

Hagnaður VÍS var 242 milljónir króna árið 2008

VÍS skilaði 242 milljón króna hagnaði eftir skatta á árinu 2008. Eiginfjárhlutfall VÍS í árslok 2008 var 30% og gjaldþol var 4,4 sinnum hærra en lágmarksgjaldþol. Handbært fé í árslok var tæplega 9 milljarðar króna.

Í tilkynningu um afkomuna segir að í lok árs 2008 átti VÍS ríkistryggð verðbréf og bankainnstæður fyrir um 20 milljarða króna eða sem svarar til nánast allri vátryggingaskuld félagsins. Vátryggingaskuld VÍS nam í árslok tæpum 21 milljarði króna en heildareignir félagsins námu 32 milljörðum króna.

Í kjölfar kaupa Exista á VÍS árið 2006 var félaginu sett ný fjárfestingarstefna og hefur markvisst verið dregið úr áhættu í eignum félagsins síðan.

„Uppgjör VÍS fyrir 2008 sýnir styrk félagsins í mjög erfiðu árferði," segir Guðmundur Örn Gunnarsson forstjóri VÍS.

„Varfærin fjárfestingarstefna og aðhald í rekstri hefur svo sannarlega borgað sig. Traust eignastaða er gífurlegt öryggisatriði fyrir viðskiptavini VÍS og átti félagið ríkistryggðar eignir og innstæður á móti nær allri vátryggingaskuld félagsins í árslok."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×