Viðskipti innlent

Rekstur Mosfellsbæjar í jafnvægi á næsta ári

Heildartekjur A og B hluta bæjarsjóðs Mosfellsbæjar á árinu 2010 eru áætlaðar 4.612 milljónir kr. en gjöld án fjármagnsliða áætluð 4.190 milljónir kr. Rekstrarafgangur án fjármagnliða er áætlaður 423 milljónir kr., fjármagnsliðir er 425 milljónir kr. og því rekstrarniðurstaða samstæðunnar neikvæð um 2 milljónir kr.

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti samhljóða í gærkvöldi fjárhagsáætlun fyrir árið 2010. Áætlun var unnin sameiginlega af öllum flokkum í bæjarstjórn líkt og gert var fyrir árið 2009. Megináherslur í fjárhagsáætluninni eru að standa vörð um fjölskyldur og velferð, en tryggja um leið að bæjarfélagið veiti áfram góða öfluga þjónusta. Yfirskrift fjárhagsáætlunarinnar er: Hagræðing - uppbygging - velferð.

Í tilkynningu segir að hagrætt verður í rekstri bæjarins til að mæta lægri tekjum sem og hækkun kostnaðar og launa svo komast megi hjá því að hækka gjaldskrár vegna þjónustu í grunn- og leikskólum og skerða styrki og heimgreiðslur. Frekari hagræðingarkrafa hefur verið gerð á yfirstjórn sveitarfélagsins, sem og stjórnunardeildir stofnana.

Gert er ráð fyrir að skatttekjur lækki að raungildi milli ára. Þrátt fyrir það verði veltufé frá rekstri jákvætt um 86 milljónir kr. og áætluð rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 3,5 milljónir kr.

Útsvarsprósenta verður 13,19% og er enn 9 punktum undir leyfilegu hámarksútsvari. Útsvarstekjur eru áætlaðar 2.682 milljónir kr. sem er hækkun um 2,7% milli ára. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 460 milljónir kr. aukning um tæpar 2 milljónir kr. frá fyrra ári vegna fjölgunar íbúða. Álagningahlutfall fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis er óbreytt en fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði verður leiðréttur sem nemur lækkun fasteignamats.

"Fjárhagur Mosfellsbæjar er traustur og hafa skuldir á undanförnum árum lækkað að raungildi samfara hækkun á eiginfjárhlutfalli, þrátt fyrir lántökur ársins 2009. Það gerir bæjarsjóði kleift að takast á við það krefjandi umhverfi sem nú blasir við. Mikil og ötul vinna hefur verið lögð í að koma þessari áætlun saman og hefur það verið meira krefjandi en nokkru sinni fyrr en niðurstaðan er vel ásættanleg miðað við aðstæður. Það er okkur mikilvægt að auka ekki byrðar á barnafjölskyldur og þá sem þurfa á félagslegri þjónustu að halda, " segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í tilkynningunni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×