Viðskipti innlent

SEB mælir með krónukaupum á aflandsmarkaði

Greining SEB bankans í Svíþjóð mælir með því við fjárfesta að kaupa krónur á aflandsmarkaði því þær muni auka verðmæti sitt fram á mitt næsta ár. Jafnframt gerir greiningin ráð fyrir að gjaldeyrishöftunum verði aflétt fljótar en áður var talið gangi þessi spá um þróun krónunnar eftir.

Í nýju áliti greiningarinnar segir að hún sér kauptækifæri í krónunni á núverandi aflandsgengi sem er í kringum 210 kr. fyrir evruna.

Greining SEB spári því að aflandsgengið og skráð gengið hér innanlands muni mætast á næsta ári í 185 kr. fyrir evruna á fyrsta ársfjórðung. Og að gengið styrkist síðan áfram og verði komið í 160 kr. fyrir evruna á öðrum ársfjórðungi næsta árs.

Fram kemur að erlendar krónueignir seú nú taldar nema um 4 milljörðum dollara eða tæplega 500 milljörðum kr. Erfitt sé að sjá samkvæmt viðskiptum á aflandsmarkaðinum hve miklu af þeirri upphæð hafi verið breytt í langtímasjóði.

„Hinsvegar benda samræður okkar við fjárfesta, sem læstir eru inni á markaðinum, að engin ótti sé til staðar. Margir þeirra hafi orðið fyrir miklu gengistapi og telji að krónan sé vanmetin," segir greiningin í áliti sínu.

Það er því niðurstaða greiningarinnar að engin óttasleginn flótti erlendra fjárfesta sé framundan þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt frekar en nú er svo framarlega sem önnur efnahagsþróun á Íslandi verði á jákvæðu nótunum.

Greiningin segir að næsta skref í afléttingu á gjaldeyrishöftunum verði að opna fyrir að erlendir fjárfestar í krónum komist úr lokuðum stöðum sínum. Það verði gert með því að færa „flöskuhálsinn" af gjaldeyrismarkaðinum og yfir á ríkisbréfamarkaðinn, það er fjárfestum verði óheimilt að selja öll ríkisbréf sín í einu.

Þriðja og síðasta skrefið væri svo að afnema öll höft hvort sem um erlenda eða innlenda fjárfesta væri að ræða og koma á fyrra frelsi í gjaldeyrisviðskiptum. Greining SEB reiknar með að lokaskrefið verði tekið á seinnihluta næsta árs.

Fyrir utan að mæla með kaupum á krónum á fyrrgreindu aflandsmarkaðsverði mælir greiningin einnig með kaupum á ríkisbréfaflokknum RIKB130517 á ávöxtunarkröfunni 7,10% og samhliða að menn kaupi í íbúðabréfaflokknum HFF 240215, sem er vísitölutengdur, til að verja sig gegn gengisáhættu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×