Viðskipti innlent

Eimskip enn á floti

Gylfi Sigfússon
Gylfi Sigfússon

„Við höldum okkur á floti og höfum ekki leitað til lánastofnana síðan í júní. Afkoman er yfir væntingum þótt róðurinn sé erfiður," segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.

Félagið tapaði 40,2 milljónum evra á síðasta ársfjórðungi, þeim fyrsta í bókum skipaflutninga­félagsins. Þetta jafngildir tapi upp á 6,6 milljarða króna. Til samanburðar tapaði fyrirtækið 38,9 milljónum evra á sama tíma í fyrra. Sex milljónir evra af tapi félagsins liggja í neikvæðum gengisáhrifum.

Gylfi segir fyrirtækið nú einbeita sér að markaðnum hér, í Færeyjum og Noregi og sé þar í góðum málum þrátt fyrir fjármálakreppuna. Öðru máli gegni um starfsemina í Eystrasaltslöndunum, sem skilaði 7,1 milljóna evra rekstrartapi á fjórðungnum. Tíu til fimmtán prósent flutningaskipaflotans í Evrópu liggur við landfestar, sem er lýsandi fyrir stöðuna, að mati Gylfa. Staða félagsins sé hins vegar viðunandi.

Stjórnendur Eimskips hafa síðasta árið unnið að því hörðum höndum að vinda ofan af skuldahít fyrri ára en stefnt er að því að láta þrjú til fimm skip ganga upp í skuldir. Sama máli gegnir um 65 prósenta hlut í Containership sem sinnir skipaflutningum á milli Eystrasaltsríkjanna og Rússlands.

Gylfi segir viðræður við bandaríska og kanadíska fjárfesta um sölu á frysti- og kæligeymslum Verscold á góðu skriði og sé stefnt að því að ljúka henni fyrir júnílok. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×