Viðskipti innlent

Bílarnir voru ekki boðnir út

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Finnur Sveinbjörnsson segir að 27 bílar hafi verið seldir.
Finnur Sveinbjörnsson segir að 27 bílar hafi verið seldir.
„Við sáum enga ástæðu til að efast um að verið væri að gera eins góða sölu og mögulegt væri," segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings, um sölu bankans á bifreiðum sem fyrrum stjórnendur bankans höfðu til umráða. Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að bílarnir hefðu verið 50 talsins en Finnur segir að þeir hafi verið 27.

Að sögn Finns voru kaupendur fundnir eftir þremur leiðum. „Í einhverjum tilvikum höfðu þeir starfsmenn sem höfðu haft viðkomandi bíla til umráða áhuga á að kaupa bílana, segir Finnur. Hann bendir á að tveir bílasalar hafi þá verið látnir verðmeta bílana áður en þeir voru seldir. „Í einhverjum tilfellum fór salan fram í gegnum bílasölu og síðan eins og hefur komið fram að þá seldum við þá í pakka," segir Finnur. Hann segir að Kaupþing hafi haft samband við helstu bílasölur og landsins og tekið hagstæðasta boðinu. „Það var eitt boð sem skar sig klárlega úr. Þá var boðið upp á staðgreiðslu sem okkur hugnaðist vel," segir Finnur. „En það var ekki farið í formlegt útboðsferli," segir Finnur.

Hann segir að bankanum beri skylda til þess að gæta hagsmuna bankans og eigandans sem er fjármálaráðherra og almenningur í landinu. Finnur telur að það hafi tekist í þessu tilfelli og bendir á að bílasalar hafi sagt í fjölmiðlum að lúxusbílar væru seldir með 30-40% afslætti þessa dagana. „Og við vorum að selja með 30% afslætti þannig að ég get ekki sé betur en að við höfum verið að fá eins gott verð og við mögulega gátum," segir Finnur.




Tengdar fréttir

Kaupþing búið að losa sig við flesta bíla

Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Nýja Kaupþings segir að bankinn sé búinn að losa sig við flesta bíla sem fyrri stjórnendur hjá bankanum höfðu. Þegar Nýi bankinn tók yfir var strax farið í að losa bíla og það kláraðist upp úr áramótum. Engin útsala var á bílaflota bankans en Finnur fagnar því að bankinn hafi náð að selja, því ekki sé auðvelt að losa sig við dýra bíla í dag.

Lúxusbílar Kaupþings seldir með 75% afslætti

Algengur afsláttur af lúxusbílum í dag er á bilinu 30 til 40 prósent að sögn eiganda bílsölu. Útlendingar fá aftur á móti helmings afslátt af slíkum bílum. Kaupþing seldi sinn bílaflota með allt að 75 prósenta afslætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×