Viðskipti innlent

Lausn Landsbankans liggur hjá seðlabanka Evrópu

Landsbankinn í Lúxemborg Veðlán Landsbankans kunna að hamla styrkingu krónunnar. Seðlabanki Íslands og skilanefnd Landsbankans hafa árangurslaust reynt að semja um lánin sem samanstanda af íslenskum ríkisskuldabréfum.
Landsbankinn í Lúxemborg Veðlán Landsbankans kunna að hamla styrkingu krónunnar. Seðlabanki Íslands og skilanefnd Landsbankans hafa árangurslaust reynt að semja um lánin sem samanstanda af íslenskum ríkisskuldabréfum.

Hugsanlegt er að heimtur úr búi gamla Landsbankans verði meiri en fram kom í samkomulagi á milli gamla og nýja bankans um síðustu helgi. Ekki er útilokað að endurheimtur kunni að vera á milli 93 til 97 prósent sem að mestu fara upp í Icesave-skuldbindinguna.

Að hluta skýrist það af hugsanlegri hækkun á virði eigna bankans en mestu munar þó um niðurstöðu samninga við evrópska seðlabankann um uppgjör vegna veðlána sem Landsbankinn í Lúxemborg fékk hjá evrópska seðlabankanum skömmu áður en hann fór í þrot í fyrra.

Í nýjasta eignamati skilanefndar Landsbankans kemur fram að ætlað verðmæti eigna nemi 1.190 milljörðum króna á móti skuldum upp á 1.319 milljarða króna. Miðað við þetta endurheimtast um níutíu prósent forgangskrafna, sem eru að mestu kröfur tengdar Icesave-innlánsreikningunum.

Lánin sem Landsbankinn í Lúxemborg fékk hjá evrópska seðlabankanum hljóða upp á rúma 2,2 milljarða evra, jafnvirði rúmra fjögur hundruð milljarða króna á núvirði. Þau voru að mestu notuð til að fjármagna rekstur Landsbankans hér.

„Þetta er viðkvæmt mál,“ segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans. Hann bendir á að skilanefndin geri ekki ráð fyrir verulegum heimtum á eignum dótturfélags Landsbankans í Lúxemborg í eignamati gamla bankans.

„Skilanefndin hefur haft vaðið fyrir neðan sig og metur endurheimtur hóflega. Því geti endurheimtuhlutfall hækkað miðað við það sem gert er ráð fyrir náist eðlileg niðurstaða um uppgjör búsins í Lúxemborg,“ segir Páll en bætir við að útilokað sé að segja til um hversu mikið heimtur kunni að hækka.

„Menn vita það ekki,“ segir hann.

jonab@frettabladid.is­






Fleiri fréttir

Sjá meira


×