Viðskipti innlent

Kröfuhafar afar ósáttir við háan rekstrarkostnað Exista

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Frá aðalfundi Exista 2008.
Frá aðalfundi Exista 2008. Mynd/Anton Brink

Rekstrarkostnaður Existu hleypur enn á hundruðum milljóna króna og eru til að mynda tveir forstjórar starfandi hjá félaginu. Kröfuhafar, með Landsbankann í broddi fylkingar, munu vera ósáttir við þetta og krefjast þess að stjórnendur félagsins fari að sínum hugmyndum, að öðrum kosti verði félagið sett í þrot.

Exista hefur verið umfangsmikið fjárfestingarfélag í íslensku viðskiptalífi. Eignir þess voru um tíma verðmætar og voru helstar Lífís, VÍS, Lýsing, Skipti, Sampo, Kaupþing, Bakkavör og Storebrand.

Eignasafnið hefur þó rýrnað töluvert á undanförnum mánuðum og voru til að mynda finnska fjármálafyrirtækið Sampo og norska tryggingarfélagið Storebrand seld með hundruð milljarða króna tapi. Síðustu mánuði hafa stjórnendur Exista staðið í samningaviðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu félagsins.

Fimmtán starfsmenn eru starfandi hjá félaginu, þar af tveir forstjórar. Samkvæmt heimildum fréttastofu hleypur rekstrarkostnaður félagsins enn á hundruðum milljóna króna og við það eru kröfuhafar með skilanefnd Landsbankans í broddi fylkingar ósáttir. Skilanefndin gjaldfelldi í lok júlí kröfur á félagið að fjárhæð 27 milljarða króna.

Stjórnendur Exista hafa farið fram á að gjaldfellingin verði afturkölluð en það hefur ekki verið samþykkt. Heimildir herma að næstu skref skilanefndarinnar verði að fara fram á kyrrsetningu sem er þá grundvöllur fyrir gjaldþrotaskiptabeiðni.

Sigurður Nordal, talsmaður Exista, sagði í samtali við fréttastofu að félagið hefði unnið að endurskipulagningu útfrá mati sem endurskoðendafyrirtækið KPMG hafi gert á greiðslugetu félagsins til framtíðar. Það hafi verið gert í samstarfi við erlenda kröfuhafa, viðhorf innlendra kröfuhafa hafi aftur á móti verið með öðrum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×