Viðskipti innlent

Raunverðlækkun íbúðaverðs mest hér meðal þróaðra ríkja

Af einstökum löndum hefur raunverðslækkun á íbúðaverði verið einna mest hér á landi, sér í lagi ef tekið mið af verðþróun íbúðarhúsnæðis í þróuðum ríkjum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að frá því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu náði toppi í byrjun síðasta árs hefur það lækkað um 12,2% að nafnvirði og um þriðjung að raunvirði. Þessi þróun er þó ekkert einsdæmi þar sem á sama tíma hefur íbúðaverð verið að lækka í löndunum umhverfis okkur enda hefur fjármálakreppan komið víða við og sú verðbóla sem í aðdraganda hennar varð og sprakk í kjölfarið með tilheyrandi lækkunum.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,1% milli september og október samkvæmt vísitölu íbúðaverðs sem Fasteignaskrá Íslands tekur saman og birti í gær. Að nafnvirði hefur íbúðaverð lækkað um 10% síðustu 12 mánuði en um 21% að raunvirði m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Að nafnvirði er íbúðaverð nú svipað og það var í ársbyrjun 2007 en að raunvirði nær því sem það var í árslok 2004. Endurspeglar lækkunin þann mikla samdrátt sem á sér nú stað á íbúðamarkaði sem og í hagkerfinu öllu.

Hin mikla uppsveifla undanfarinna ára á íbúðamarkaði hefur orðið til þess að nú þegar ládeyða hefur verið á þessum markaði situr eftir mikill fjöldi nýrra óseldra íbúða á framboðshlið markaðarins sem skapar frekari þrýsting til verðlækkunar. Við þetta ástand á íbúðamarkaði bætist við atvinnuleysi, skattahækkanir, lækkandi ráðstöfunartekjur og greiðsluerfiðleikar heimilanna svo fátt eitthvað sé nefnt.

Opinberar spár um þróun íbúðaverðs á næstu misserum gera ráð fyrir að enn frekari lækkununum, eða um hátt í 50% að raunvirði frá því að hápunktinum var náð áður en yfirstandandi lægð lýkur á fasteignamarkaði árið 2011. Þannig má reikna með að frekari lækkun á íbúðaverði sé óhjákvæmileg þó að mesta lækkunin sé að öllum líkindum yfirstaðin, að því er segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×