Viðskipti innlent

Össur fer í 3,75 milljarða hlutafjárútboð

Stjórn Össurar hf. hefur í dag tekið ákvörðun um að ráðast í takmarkað og lokað útboð á allt að 29.500.000 nýjum hlutum í Össuri á markaðsverði án forkaupsréttar núverandi hluthafa. Miðað við markaðsverð Össurar í dag nemur útboðið um 3,75 milljörðum kr.

Í tilkynningu segir að útboðið fer fram á grundvelli söfnunarferlis þar sem boðnir verða að hámarki 29.500.000 hlutir að nafnvirði 1 kr. hver, sem svarar til u.þ.b. 7,0% af útistandandi hlutafé Össurar, að nafnvirði 423.000.000 kr.

Útboðsgengið verður ákvarðað að loknu söfnunarferlinu. Miðað við lokgagengið hinn 2. nóvember 2009, sem var DKK 5,2, mun brúttósöluandvirði bréfanna í útboðinu svara til u.þ.b. 153 milljónum danskra kr. (30 milljónir Bandaríkjadala) ef miðað er við að fjárfestar skrifi sig fyrir öllu hlutafénu sem í boði er.

Tilgangur útboðsins er að auka fjárhagslegan sveigjanleika félagsins og styrkja grunninn að framtíðarvexti þess. Á undanförnum árum hefur Össur þróast í alþjóðlegt fyrirtæki sem er leiðandi í framleiðslu á stoð- og stuðningsvörum og með sterka markaðshlutdeild á sínum mörkuðum. Félagið á sér sögu um að auka stöðugt verðmæti þeirra vörutegunda sem það framleiðir, bæði með nýsköpun og fyrirtækjakaupum sem styðja við vöxt félagsins.

Stjórnendur Össurar telja að langtímahorfur í rekstri félagsins séu mjög góðar. Stöðugt er fylgst með markaðsþróun og fjárfestingartækifærum, en Össur er í góðri stöðu til þess að færa sér í nyt tækifæri sem skapast.

Ennfremur hefur Össur hug á að auka flot á bréfum félagsins og bæta þar með seljanleika og verðmyndun bréfanna.

Útboðið beinist að tilteknum fagfjárfestum og öðrum dönskum og alþjóðlegum fjárfestum. Útboðið beinist ekki að fjárfestum sem hafa búsetu á Íslandi. Í útboðinu hafa núverandi hluthafar Össurar fallið frá forkaupsrétti sínum skv. heimild í samþykktum félagsins.

Sænski bankinn SEB Enskilda er umsjónaraðili útboðsins. Áskriftarumsóknir skulu sendar til umsjónaraðilans og öll kaup skulu eiga sér stað hjá honum. Tilboðssöfnunin hefst þegar í stað. Gert er ráð fyrir að verðákvörðun og úthlutun verði tilkynnt svo fljótt sem unnt er að lokinni tilboðssöfnuninni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×