Viðskipti innlent

Landsvirkjun gæti losað um 50 milljarða í krónubréfum

Landsvirkjun gæti komið um 50 milljarða kr. virði af krónu/ríkisbréfum í eigu erlendra aðila í lóg ef allt gengi að óskum.

Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar segir að áhugi sé af hálfu bæði Landsvirkjunar og erlendra eigenda krónubréfa að kanna mögulega skuldabréfaútgáfu til nokkurra ára. Krónubréfaeigendur keyptu þá bréfin með krónum en Landsvirkjun greiddi lánið til baka í dollurum þegar þar að kemur.

Fram kemur í máli Þorsteins að óformlegar þreifingar hafi verið í gangi milli Landsvirkjunar og hinna erlendu eigenda. Raunar hafi Landsvirkjun unnið að málinu frá því fyrir áramót en leggi áherslu á að það sé unnið í samvinnu við íslensk stjórnvöld.

Talan 50 milljarðar kr. er fengin þannig að endurfjármögnunarþörf Landsvirkjunar árið 2011 er á bilinu 150 til 200 milljónir dollara. Og ef farið verður í þá virkjunarframkvæmd sem liggur beinast við, Búðarhálsvirkjun, myndi kostnaður við hana nema um 200 milljónum dollara. Miðað við gengi dollarans í dag gera þetta samtals um 50 milljarða kr.

„Við teljum svona skuldabréfaútgáfu áhugaverðan möguleika því þetta gæti verið hagstæð leið fyrir okkur að afla lausafjár," segir Þorsteinn. „Enda höfum við kíkt á málið frá því fyrir síðustu áramót."

Fram kemur í máli Þorsteins að þeir viti til þess að áhugi sé til staðar hjá erlendum eigendum krónubréfa að losa sig úr þeim stöðum með því að semja við íslensk fyrirtæki/félög sem hafa tekjur í erlendri mynt eins og Landsvirkjun gerir.

„Við höfum fengið fyrirspurnir að utan og erum að skoða þessi mál af fullri alvöru," segir Þorsteinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×