Viðskipti innlent

Erlendum ferðamönnum fækkar

Alls komu 54.489 erlendir gestir til landsins í júní í gegnum Leifsstöð samkvæmt tölum Ferðamálastofu og er það fækkun um 4% frá sama mánuði fyrra árs. Svo virðist sem veikt gengi krónunnar hafi enn sem komið er ekki haft þau áhrif að fjölga ferðamönnum sem sækja Ísland heim, en ferðamannatímabilið stendur nú hvað hæðst. Frá þessu segir í morgunkorni Íslandsbanka.

Í kjölfar hrunsins er orðið ódýrt að heimsækja Ísland. Það ætti að gera það að verkum að erlendum ferðamönnum fjölgi sem og gistinóttum á hótelum enda má segja að það sé nú um það bil helmingi ódýrara fyrir erlenda ferðamanninn að kaupa sér nótt á hóteli heldur en fyrir ári síðan. Þrátt fyrir það fækkaði gistinóttum á hótelum um 5% frá júní mánuði í fyrra.

Hinsvegar verður einnig að taka með í reikninginn að efnahagsástand er slæmt víðar en á Íslandi sem gerir það að verkum að færri en áður leggja í ferðalög í sumarleyfinu. Þannig er búist við að ferðamanniðnaðurinn á heimsvísu muni dragast saman í ár og á það við um flug, gistingar sem og alla aðra þætti ferðamennsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×