Erlent

Leyfir honum að njóta vafans

Hamid Karzai segist nú ætla að taka til óspilltra málanna við að útrýma spillingu.Fréttablaðið/AP
Hamid Karzai segist nú ætla að taka til óspilltra málanna við að útrýma spillingu.Fréttablaðið/AP
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Hamid Karzai verði að standa við stóru orðin, nú þegar hann hefur annað kjörtímabil sitt í embætti forseta Afganistans.

Hamid Karzai lofaði bót og betrun þegar hann tók formlega við embættinu á fimmtudag. Hann hét því að sækja spillta embættismenn til saka og sjá til þess að þeim yrði ekki hlíft við refsingu lengur.

Clinton hefur, eins og fleiri ráðamenn á Vesturlöndum, harðlega gagnrýnt Karzai og ríkisstjórn hans fyrir aðgerðaleysi gagnvart spillingu, sem er útbreidd meðal valdastéttar landsins.

Hún virtist þó ætla að leyfa honum að njóta vafans um sinn, en lofar að Bandaríkin og alþjóðasamfélagið muni beita hann þrýstingi.

„Það er erfitt verkefni að vera forseti og við munum gera okkar besta til þess að sinna því af heilindum í framtíðinni,“ sagði Karzai í innsetningarræðu sinni á fimmtudag.

Í ræðu sinni lýsti hann áhuga sínum á að verða sameiningarafl allra Afgana og ítrekaði boð sitt til mótframbjóðenda sinna um ráðherraembætti í nýrri ríkisstjórn.

Forsetakosningarnar í sumar hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir kosningasvik, ekki síst af hálfu stuðningsmanna Karzais í suðurhluta landsins.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×