Viðskipti innlent

Rekstur Landsbankans traustur og ekki of aðþrengdur

Ásmundur Stefánsson bankastjóri Landsbankans og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra eru bjartsýnir á framtíð bankans.

Stofnefnahagsreikningur bankans var kynntur í morgun í höfuðstöðvum bankans og segir Ásmundur rekstur bankans traustan og ekki of aðþrengdan. „Við erum með góða efnahagsstöðu og erlenda lántöku til að standa á bak við okkar útflutningsatvinnuvegi. Við erum með traust starfsfólk þannig að okkar grunnur er öruggur til framtíðar."

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra er sömuleiðis bjartsýnn. „Nú er Landsbankinn kominn aftur í trausta eigu þjóðarinnar, að yfirgnæfandi meirihluta. Það lá fyrir að útkoman yrði sú að ríkið ætti Landsbankann."

Steingrímur segir mjög gleðilegt að ríkið komist frá endurreisn bankanna með mun minni kostnaði en upphaflega stefndi í. Samtals sé ríkið að leggja 135 milljarða króna í viðskiptabankana þrjá og veita þeim til viðbótar 50 milljarða króna lán. Í heild sé ríkið því að binda 185 milljarða í bönkunum, í stað þeirra 385 milljarða sem upphaflega var búist við. „Það er ástæða til að fagna niðurstöðunni að þessu leyti og sérstaklega því að þetta samkomulag markar endalokin á endurreisn stóru viðskiptabankanna þriggja sem nú er í höfn, með samkomulagi í öllum tilvikum."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×