Viðskipti innlent

Vildi binda atkvæðarétt við óveðsetta hluti

Einn af hluthöfum Exista tók til máls á hluthafafundinum í morgun og lagði fram tillögu þess efnis að atkvæðaréttur í félaginu verði bundinn við það skilyrði að hlutafé sé ekki veðsett.

Hluthafinn segist hafa ásamt fjölskyldu sinni keypt hlutabréf fyrir sparnað sinn síðustu tvo áratugi. Hann segist hafa heillast af hugmynd Alberts Guðmundssonar, þáverandi fjármálaráðherra, um að hlutabréfafjárfesting sé góð leið til að styrkja hag íslenskra fyrirtækja og hagsmuni einstaklinga.

Hann segir að á síðustu árum hafi komið fram fyrirferðamikill hópur sérkennilegra fjárfesta sem hafi kappkostað að kaupa hlutabréf, oftast gegn lánsfé. Hlutabréfin hafi svo verið veðsett til að kaupa enn stærri hluta. Tilgangurinn hafi verið að komast yfir bankastofnanir og fyrirtæki og til að hafa allan þann hag sem því fylgir. Engin langtímamarkmið séu í huga þessara manna.

Til að bregðast við þessu lagði hann tillögu um að atkvæðaréttur hluthafa Exista takmarkist við það skilyrði að hlutaféð sé ekki veðsett. Tilgangur tillögu hans var að hans sögn að kappkosta að tryggja sem best hagsmuni smárra hlutafjáreigenda sem og lífeyrissjóða. Þá telur hann að með þessu sé hægt að treysta betur viðskiptasiðferði og koma í veg fyrir að Existu sé stjórnað með léttuð og ævintýramennsku, sem hann segir að raunin hafi verið.

Tillagan var borin undir hluthafa á fundinum í morgun og var felld með miklum meirihluta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×