Viðskipti innlent

Afleiðingar gjaldeyrishafta verða lökustu lífskjör í Evrópu

Lífskjör á Íslandi færast 60 ár aftur í tímann og verða með þeim lökustu í Evrópu ef ekki verður losað um gjaldeyrishöft og stýrivextir lækkaðir. Þetta kom fram í máli Margeirs Péturssonar, stjórnarformanns MP banka, í þættinum Markaðurinn með Birni Inga Hrafnssyni í gærkvöldi.

Margeir sagði ljóst að krónan væri mun veikari en skráning Seðlabankans gæfi til kynna. Í raun væri hægt að tala um tvöfalt gengi.

Á erlendum mörkuðum fást 200 til 230 krónur fyrir evruna, samkvæmt miðlunarkerfi Reuters, en hér landi kostar evran um 160 krónur. Tekið skal fram að viðskipti með krónur í miðlun Reuters eru stopul og lítil.

Margeir segir nauðsynlegt væri fyrir þjóðina að lækka gengið og taka skellinn því að öðrum kosti væri ekki hægt að afnema gjaldeyrishöft og lækka stýrivexti. Áframhaldandi höft kæmu í veg fyrir endurreisn efnahagslífsins.

„Hinsvegar ef að við erum bara með gjaldeyrishöft og falskt gengi og ofurháa vexti þá mun ríkja hér algjör stöðnun og deyfð og við verðum aftur með ein lökustu lífskjör í Evrópu eins og var fyrir 60 árum eða svo," segir Margeir.

Vöruskipti í mars voru hagstæð um rúmlega 8 milljarða króna samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Margeir sagði ljóst að afgangurinn þyrfti að vera meiri til að þjóðin gæti staðið við sínar skuldbindingar. Íslendingar þyrftu að sýna meiri aðlögunarhæfni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×