Viðskipti innlent

Greining: Enn sama frostið á íbúðamarkaðinum

Samdráttur er enn umtalsverður á íbúðamarkaði og fá teikn á lofti um að það muni breytast neitt á næstunni. Í september var veltan í viðskiptum með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu 45% minni en í sama mánuði í fyrra og samningarnir 37% færri.

 

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þetta séu viðlíka samdráttartölur og sést hafa síðustu mánuði en að meðaltali var veltan á tímabilinu júní til ágúst á þessu ári 46% minni en á sama tímabili í fyrra og samningarnir 39% færri.

 

Markaðurinn er hins vegar jafnan í sérstaklega mikilli ládeyðu í ágúst sökum sumarleyfa og því jókst bæði veltan og fjöldi kaupsamninga á milli ágúst og september í ár líkt og á hverju ári undanfarin ár.



Í heild var þinglýst 228 kaupsamningum um fasteignir á höfuðborgarsvæðinu í september og var veltan 6,2 milljarðar kr. Makaskiptasamningar voru 35% af heildarfjölda samninga. Er það viðlíka hlutfall og sést hefur undanfarna mánuði en mun hærra en var hér fyrir hrun bankanna og kólnun íbúðamarkaðarins í fyrra. Í september í fyrra voru makaskiptasamningar 21% af heildarfjölda samninga á markaðinum. Kemur þetta fram í tölum sem Fasteignaskrá Íslands birti í gær.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×