Viðskipti innlent

Þráinn ráðinn fjármálastjóri Iceland Travel

Þráinn Vigfússon hefur verið ráðinn fjármálastjóri Iceland Travel og VITA. Þráinn hefur langa og víðtæka reynslu af störfum innan ferðaþjónustunnar, meðal annars sem fjármálastjóri og síðar framkvæmdastjóri hjá Kynnisferðum.

Í tilkynningu segir að Þráinn hafi gegnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum á sviði ferðamála, m.a. hjá Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum atvinnulífsins, auk þess sem hann hefur setið í stjórn Íshesta, Sæferða og SBK.

Þráinn er 41 árs viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands. Hann er kvæntur Svövu Liv Edgarsdóttur og eiga þau þrjú börn.

Iceland Travel er leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi. Fyrirtækið er hluti af Icelandair Group og hefur í rúm 30 ár sérhæft sig í móttöku erlendra ferðamanna og skipulagningu ráðstefna og ýmissa viðburða á Íslandi.

Ferðaskrifstofan VITA var stofnuð í júní 2008 og er rekin af Iceland Travel. Helsta markmið ferðaskrifstofunnar er að bjóða upp á fjölbreytt úrval ferða í leiguflugi með góðri þjónustu og tryggum flugkosti á samkeppnishæfu verði.

Hjá Iceland Travel og VITA starfa um 70 manns sem þjóna rúmlega 40 þúsund viðskiptavinum á ári hverju.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×