Viðskipti innlent

Athugasemdir gerðar við lánveitingu TM til Samherja

Gögn sem send voru Fjármálaeftirlitinu sýna að athugasemdir voru gerðar við lánveitingu Tryggingarmiðstöðvarinnar til Samherja vegna kaupa á eigin hlutum félagsins. Fjármálaeftirlitið kannast samt sem áður ekki við að hafa fengið erindi vegna þess.

Fréttastofa sagði frá því í síðustu viku að Tryggingarmiðstöðin hefði lánað Samherja einn milljarð króna til að kaupa eigin bréf félagsins árið 2006. Lánveitingin var aldrei borin undir stjórn félagsins en stjórnarmenn sendu kvörtun til Fjármálaeftirlitsins. Liður í þeirri kvörtun var umrætt lán til Samherja. Þeir lögfræðingar sem fréttastofa hefur rætt við telja að lánið hafa verið ólöglegt. Í kjölfar fréttarinnar sendi Fjármálaeftirlitið frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að eftir að hafa farið vandlega yfir gögn frá þessum tíma hafi komið í ljós að ekki hafi borist kvörtun um lánveitinguna frá stjórnarmönnum TM. Óskar Magnússon, sem var forstjóri TM á þessum tíma, sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að ljósi yfirlýsingar Fjármálaeftirlitsins hefði fréttastofa ranglega haldið því fram að um ólöglega lánveitingu hafi verið að ræða.

Fréttastofa hefur undir höndum bréfaskriftir fyrrverandi stjórnarmanns TM til Hlyns Jónssonar, sem var yfirmaður hjá Fjármálaeftirlitinu, vegna málsins. Í bréfi sem sent er eftirlitinu 31. janúar 2007 er gerð athugasemd við lánveitinguna. Þar segir að þeir sem stóðu að sölunni hafi látið duga að skuldfæra viðskiptareikning Samherja hjá TM fyrir kaupverðinu. Stjórnarmanninum sé ekki kunnugt um að stjórn félagsins hafi nokkru sinni veitt heimild sína fyrir þessum viðskiptaháttum, sem seint verða taldir eðlilegir. Skuldinni á viðskiptareikningnum hafi svo verið breytt í skuldabréf með einum gjalddaga.

Hjá Fjármálaeftirlitinu fengust þau svör að rétt sé að eftirlitinu hafi borist fyrirspurnir er vörðuðu yfirtökuskyldu en kannast hins vegar ekki við að borist hafi sérstakt erindi varðandi sjálfar lánveitingarnar. Af gögnunum má þó sjá að athugasemdir voru gerðar við lánveitinguna þó að þær hafi ekki verið sendar sem sérstakt erindi.


Tengdar fréttir

TM lánaði Samherja milljarð til að kaupa hlut í TM

Tryggingarmiðstöðin, undir forystu Óskars Magnússonar, braut lög þegar félagið lánaði Samherja einn milljarð króna til að kaupa hlut í sjálfu sér árið 2006. Óskar segir að endurskoðandi hafi gert athugasemdir við lánið. Fjármálaeftirlitið hunsaði kvörtun stjórnarmanna TM vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×