Viðskipti innlent

Úr fortíðinni Þegar stórveldið SÍS vildi Útvegsbankann

Kaupin kynnt Snittur voru á borðum þegar þremenningarnir frá stórveldinu SÍS tilkynntu að það ætlaði sér kaup á meirihluta Útvegsbankans í ágúst 1987. 
Markaðurinn/Jóhann A. Kristjánsson
Kaupin kynnt Snittur voru á borðum þegar þremenningarnir frá stórveldinu SÍS tilkynntu að það ætlaði sér kaup á meirihluta Útvegsbankans í ágúst 1987. Markaðurinn/Jóhann A. Kristjánsson

Um miðjan ágúst árið 1987 gerði Sambandið (SÍS) og þrjú félög þess, Samvinnusjóður Íslands, Jötunn hf. og Dráttarvélar hf. tilboð í 67 prósenta hlut Útvegsbankans. Til stóð að sameina bankann Samvinnubankanum, sem þá var í eigu SÍS, en það teygði þá anga sína vítt og breitt um samfélagið allt. Málið varð að pólitísku deilumáli og varð ekkert úr kaupunum.

Fyrir miðju á myndinni er Valur Arnþórsson, stjórnarformaður SÍS. Valur átti sæti í stjórn margra dótturfélaga KEA og Sambandsins. Á vinstri hönd hans situr Guðjón B. Ólafsson, forstjóri SÍS. Á móti honum situr Hermann Sveinbjörnsson, blaðafulltrúi SÍS.

Á hægri hönd Hermanns situr fjölmiðlamaðurinn Hallur Hallsson. Kristín Þorsteinsdóttir, þá fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, stendur vinstra megin við Val. Fjölmiðlamaðurinn Bjarni Vestmann er talinn standa honum á hægri hönd.

Þremur árum eftir að myndin var tekin var SÍS að sökkva í skuldafen. Landsbankinn kom til bjargar, keypti Samvinnubankann og sameinaði hann rekstri sínum. Þremur árum síðar var skuldastaðan orðin slík að bankinn neyddist til að taka SÍS yfir og afskrifaði helming skulda félagsins, þá í kringum 700 milljónir króna. Öllu starfsfólki SÍS var sagt upp í kjölfarið og heyrði reksturinn sögunni til.

Á miðjum níunda áratugnum varð Útvegsbankinn gjaldþrota vegna vangoldinna skulda Hafskipa. Hann sameinaðist Iðnaðarbankanum, Verslunarbankanum og Alþýðubankanum og varð að Íslandsbanka, sem síðar varð Glitnir.

Valur Arnþórsson tók nokkru síðar við stöðu bankastjóra Landsbankans. Hann lést í flugslysi í október 1990, þá 55 ára að aldri.

Guðjón B. Ólafsson missti starf sitt ásamt öðrum við fall SÍS. Hann lést árið 1993, 58 ára að aldri.

Hermann Sveinbjörnsson lést um mitt ár 2003. Hann var 54 ára. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×